Kærkomin gjöf til lyfjadeildar FSA

Frá afhendingu tölvunnar sem gefin er til minningar um Jón Gísla Grétarsson.
Frá afhendingu tölvunnar sem gefin er til minningar um Jón Gísla Grétarsson.

"Þetta er kærkomin gjöf, sem kemur sér vel fyrir sjúklinga, sérstaklega þá sem eru lengi rúmfastir", sagði Þorvaldur Ingvarsson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, FSA, þegar hann tók á móti fartölvu, sem lyfjadeildinni var færð að gjöf í dag. Tölvan er gefin til minningar um Jón Gísla Grétarsson, sem lést í september sl.

Jón Gísli fékk hjartaáfall liðlega fertugur og þurfti oft að leita liðsinnis á lyfjadeildinni eftir það. Það voru skólasystkini Jóns úr árgangi 1949, sem gáfu tölvuna. "Við erum fyrst og fremst að hugsa um sjúklinga deildarinnar, að þeir geti verið í góðu sambandi við umheiminn, ekki síst sína nánustu, á meðan þeir dvelja hér", sagði Gísli Sigurgeirsson, einn úr árgangi ´49, þegar hann afhenti tölvuna í dag.

Margrét Þorsteinsdóttir, deildarstjóri, sagði tölvuna kærkomna, það hafi lengi verið markmið sjúkrahússins að bæta aðstöðu sjúklinga og aðstandenda þeirra. Þetta væri stórt skref í þá átt. Nick Cariglia, forstöðulæknir deildarinnar, sagði við athöfnina í dag, að starfsfólki sjúkrahússins hlýnaði ætíð um hjartaræturnar þegar bæjarbúar sýndu sjúkrahúsinu hlýhug í verki. Hann hefur starfað á Sjúkrahúsinu á Akureyri í áratugi og Nick segist hafa notið þess. Sjúkrahúsið væri lítið, en það hefði sína kosti; á litlu sjúkrahúsi væri hægt að gera umhverfið heimilislegra. Hann benti hins vegar á, að á niðurskurðartímum væru litlu sjúkrahúsin á landsbyggðinni í hættu. Hann hvatti íbúana, fólkið á landsbyggðinni, til að standa vörð um starfsemi sjúkrahúsanna. Öflug heilbrigðisþjónusta sé hverju byggðarlagi nauðsynleg.

 

Nýjast