Í vikunni opnuðu handverks- og hannyrðakonurnar í Kaðlín sína rómuðu verslun í nýjum höfuðstöðvum, í Samkomuhúsinu á Húsavík. Áður höfðu þær verið með aðstöðu í Pakkhúsinu á Sölkutorgi um árabil, en yfirgáfu staðinn um áramótin síðustu. Það var svo Norðurþing sem skaut yfir þær skjólshúsi tímabundið, þ.e. frá 1. maí til loka september í ár.
Þegar litið var inn á fyrst degi voru þær stöllur Ella, Begga og Abba á staðnum og voru að koma sér fyrir. Verslunin er frammi í anddyrinu og fatahenginu og kaffistofa Leikfélagsins gegnir hlutverki lagers og jafnvel vinnustofu. Þær kváðust mjög þakklátar Norðurþingi og LH fyrir velvilja og lipurð, en sögðust áfram verða á höttunum eftir húsnæði til frambúðar.
„Þetta er töluvert minna pláss en við höfðum áður en það verður að duga. Hér verður opið alla daga vikunnar frá kl. 10-18 og þess utan er hægt að hafa samband utan afgreiðslutíma. Síminn hjá Kaðlín er 853-2060 og Ella er svo alltaf á vaktinni og sinnir útköllum í síma 897-1051.“ Sagði Begga.
Þær vonuðust til að sjá sem flesta í sumar og hvöttu ekki síst Þingeyinga til að líta inn. „Við vorum einmitt mjög ánægðar með það að fyrsti kúnninn okkar í ár var Húsvíkingur,“ sagði Abba. Og allar hvöttu þær veðurguðina til að fara nú að gera eitthvað í þessu með sumarið! JS