KA Þór = ÍBA/Akureyri
Í síðasta blaði Vikudags er flott viðtal við norðanmanninn Björgólf Jóhannsson, þar sem hann tjáir sig um hin ýmsu mál. Hann er gamall fótboltamaður úr Magna, blakari úr KA og fleiri liðum. Hann var um tíma formaður handknattleiksdeildar KA þegar liðið var á toppi í þeirri íþrótt, sat einnig í aðalstjórn KA og í byggingarnefnd íþróttahús KA.
Fram kemur að það er skoðun Björgólfs að sameina eigi meistaraflokka KA og Þórs í knattspyrnu karla og reyna með því að eignast sterkt og öflugt knattspyrnulið hér á Akureyri sem alltaf verði í hópi þeirra bestu á landinu. Hann segir kostnaðinn við að reka tvö lið sé allt of mikill og bæði félögin séu að róa á sömu mið í fjáröflunum. Þá kemur hann inn á það að sameining hafi gengið vel í handboltanum og í kvennafótboltanum.
Björgólfur, þótt gamall KA maður sé, sér þetta í öðru og sennilega skynsamlegra ljósi og veit örugglega um hvað hann er að tala. Ég verð að viðurkenna að mér finnst allt sem hann segir vera bæði satt og rétt. Slík sameining fór fram á Akranesi þegar KA og Kári voru sameinuð og einnig hjá Þór og Týr í Vestmannaeyjum. Hins vegar er það svo að þegar þetta ber á góma fer gamla KA hjartað mitt að slá hraðar. Eftir að hafa staðið bæði í kulda, trekki, vindi og sólskini á hliðarlínunni og hvatt mitt lið hugsa ég. Með hverjum á ég nú að halda.
Jú, jú. Ég get að sjalfsögðu haldið með mínu Akureyrarliði. Í uppvextinum á mínu heimili var það hins vegar svo að KEA, Framsóknarflokkurinn, KA og Guð almáttugur voru settir á sama stall, hæsta stall og ekkert gefið eftir.
Ég hef oft hugsað til þeirra fjölmörgu sem ég þekki og eru hvorki í KA eða Þór og er alveg sama um þessi félög. Þeim er að sjálfsögðu alveg sama um þetta mál og finnst örugglega sjálfsagt að sameina félögin, sérstaklega ef það gæti sparað bæjarbúum útgjöld. Vinur minn sem ég bar þetta undir sagði. Þegar Manchester United og Manchester City sameinast þá samþykki ég sameiningu KA og Þórs.
Það var gaman í KA heimilinu á Alfreðs og Duranóna tímabilinu. Því gleymir enginn sem upplifði þá stemmningu sem þar skapaðist. Mér finnst ekki eins gaman af handboltanum síðan liðin voru sameinuð. Ég hef alltaf sagt að mestu mistökin sem gerð voru, voru að færa heimaleikina í Höllina. Við áttum að leika áfram í KA heimilinu, sem var að flestra mati lang besta keppnishús landsins. Það næst aldrei sama stemmning í Höllinni jafnvel þótt áhorfendur séu margir og ég er þess handviss að margir leikir hafa tapast þar, sem hefðu unnist í hinu húsinu.
Þegar staðið er að sameiningu milli svo rótgróinna íþróttafélaga svo sem Þórs og KA verður að standa vel og heiðarlega að því. Þar hafa margir lagst á plóginn og gert þetta ágætlega. Margir í bláa og gula félaginu láta það hins vegar fara í taugarnar á sér þegar þjálfari Þórs/KA í kvennaboltanum kemur í sjónvarpsviðtal með Þórsmerki í húfunni sinni, en ekki bæði merkin eins og eru í búningi leikmanna.
Hins vegar er það svo að sú kynslóð sem var alin upp við það að vera annað hvort KA-maður eða Þórsari og lætur slíkt fara í taugarnar á sér, er nú á undanhaldi.
Nú í augnablikinu (og áður en ég skipti um skoðun) er álit mitt það, að vilja ekki sameina meistaraflokka KA og Þórs í knattspyrnu karla að svo stöddu. Ég er hins vegar viss um að það verði að veruleika innan örfárra ára því þá verður komin önnur kynslóð sem hefur aðrar áherslur og hugsanir en við þessir gömlu hundar sem vilja engu breyta.
Ólafur Ásgeirsson.
Höfundur hefur setið í aðalstjórn KA, handknattleiksdeild KA og knattspyrnudeild KA.