KA tapaði gegn botnliðinu á heimavelli

Pape Mamadou Faye sá til þess að Leiknir R. færi með öll þrjú stigin heim eftir 2:0 sigur Breiðhyltinga gegn KA í dag á Akureyrarvelli í 1. deild karla í knattspyrnu. Pape skoraði bæði mörk Leiknis sem hafði 1:0 yfir hálfleik. Leiknismenn léku varnarmenn KA grátt á köflum og hefði sigurinn getað verið stærri. KA var meira með boltann í leiknum en fóru illa með nokkur ágætt færi.

 

Leiknir var mun beittara liðið fram á við og sigurinn nokkuð sanngjarn. Þetta var hins vegar fjórða tap KA í röð og eru norðanmenn komnir í bullandi fallbaráttu. Leiknir kom sér hins vegar úr botnsætinu með sigrinum. 

 

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn. Lítið gerðist framan af en bæði lið fengu ágætis færi til þess að skora þegar líða tók á hálfleikinn og björguðu gestirnir m.a. á línu eftir um hálftíma leik. Það var svo á 40. mínútu að Pape Mamadou Faye skoraði fyrsta mark leiksins. Boltinn datt fyrir fætur hans í teignum og Pape tók góðan snúning og skoraði með fínu skoti. 

Staðan 0:1 í hálfleik.

Pape fékk svo dauðafæri eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik er hann slapp einn í gegn en Sandor Matus varði vel í marki KA. Pape slapp svo aftur einn í gegn á 63. mínútu er hann stakk tvo varnarmenn KA af eftir góða stungusendingu. Pape gerði enginn mistök að þessu sinni og klobbaði Sandor í markinu. Staðan 0:2.

Leiknir var svo nálægt því að bæta við þriðja markinu á 73. mínútu en leikmaður Leiknis fór þá illa með upplagt færi. Pape hefði svo getað fullkomnað þrennu sína í leiknum þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum er hann slapp enn og aftur einn í gegn eftir skelfilegan varnarleik hjá Hafþóri Þrastarsyni en Sandor var vel á verði í markinu.KA-menn menn reyndu að klóra í bakkan en allt kom fyrir ekki. Lokatölur á Akureyrarvelli, 0:2.

Gríðarlega mikilvæg þrjú stig hjá Leikni sem lyftir sér upp úr botnsætinu og hefur nú sjö stig í næstneðsta sæti, aðeins þremur stigum minna en KA sem hefur áfram tíu stig í tíunda sæti.

Nýjast