Í leik KA og HK voru það heimamenn í KA sem byrjuðu leikinn betur. David Disztl átti fínt færi strax á 2. mínútu leiksins er hann fékk boltann inn í teig HK- manna en skot hans á markið var slakt og fór beint á markvörð gestanna. Heimamenn héldu áfram að sækja að marki HK- manna og voru mun líklegri til þess að skora. Guðmundur Óli Steingrímsson komst í fínt færi á 25. mínútu leiksins eftir sendingu frá Arnari Má Guðjónssyni en skot hans úr vítateig gestanna fór framhjá markinu.
Það var svo ungverski markahrókurinn David Disztl sem skoraði fyrsta mark leiksins. Það kom á 37. mínútu eftir sendingu frá Dean Martin inn í teig HK- manna sem rataði beint á kollinn á Disztl sem stýrði boltanum glæsilega í fjærhornið.
Staðan 1-0 í hálfleik.
Eftir slakan fyrri hálfleik komu gestirnir í HK tvíefldir til leiks í þeim seinni. Það tók þá aðeins tvær mínútur að jafna leikinn í seinni hálfleik og það gerði Ásgrímur Helgason er hann skallaði boltann í netið eftir sendingu fyrir mark KA. Staðan 1-1.
David Disztl fékk úrvalsfæri til að koma heimamönnum yfir á nýjan leik á 52. mínútu. Markvörður HK datt í teignum og boltinn barst til Disztl sem skaut að opnu marki en varnarmaður gestanna varð fyrir boltanum og bjargaði marki fyrir HK- menn. Gestirnir komust svo yfir í leiknum á 60. mínútu þegar Almir Cosic þrumaði boltanum í mark KA- manna fyrir utan teig og Sandor Matus í marki heimamanna kom engum vörnum við. Glæsilegt mark og HK- menn komnir 2-1 yfir.
Gestirnir voru ekki hættir því Rúnar Már Sigurjónsson bætti þriðja marki HK- manna við þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum er hann fékk sendingu inn í teig heimamanna og skoraði laglega í bláhornið og staðan vænleg fyrir gestina.
KA- menn reyndu hvað þeir gátu til þess að minnka muninn og næst því komst Haukar Heiðar Hauksson er Dean Martin sendi boltann fyrir mark HK og Haukur Heiðar tók boltann á lofti en skot hans fór yfir markið af stuttu færi. Fleiri urðu mörkin ekki og KA varð að játa sig sigraðan í kvöld og annar tapleikurinn í deildinni í röð staðreynd. Lokatölur á Akureyrarvelli 3-1 sigur HK.
Eftir leikina í kvöld er KA í 5. sæti deildarinnar með 17 stig en Þór er í 9. sæti með 12 stig.