KA óskar eftir því að framkvæmdum við gervigrasvöll verði flýtt um eitt ár
Knattspyrnufélag Akureyrar hefur óskað eftir því að Akureyrarbær flýti framkvæmdum við væntanlegan gervigrasvöll á
félagssvæði KA um eitt ár, þannig að ráðist verði í jarðvegsframkvæmdir á svæðinu strax í haust og
völlurinn lagður gervigrasi vorið 2012. Þá hefur KA óskað eftir að bærinn komi til móts við félagið vegna aukinna
fjárútláta vegna kalskemmda á knattspyrnuvöllum félagsins.
KA óskar eftir því að bærinn leggi til sem nemur 950.000 krónum, sem er viðbótarkostnaður vegna þess mikla tjóns sem félagið hefur orðið fyrir. Málið var til umræðu á fundi bæjarráðs í morgun og þar var samþykkt að vísa ósk KA um styrk að upphæð kr. 950.000 vegna kalskemmda á knattspyrnuvöllum félagsins til umsagnar íþróttaráðs. Varðandi ósks KA um að flýta framkvæmdum við gervigrasvöll óskaði bæjarráð eftir framkvæmda- og kostnaðaráætlun vegna verksins.