KA og Þór með sigra í dag

KA og Þór sigruðu bæði sína leiki í 21. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í dag. KA vann Víking R. á Akureyrarvelli, 2-1, með mörkum frá Arnari Má Guðjónssyni og Orra Gústafssyni. Þór gerði góða ferð í Mosfellsbæinn þar sem liðið mætti Aftureldingu á Varmárvelli og vann öruggan 4-1 sigur. Hreinn Hringsson skoraði tvívegis fyrir Þór í leiknum og þeir Ármann Pétur Ævarsson og Jóhann Helgi Hannesson sitt markið hvor.

Í leik KA og Víkings voru það heimamenn sem voru sprækari í upphafi leiks en það voru hins vegar gestirnir sem skoruðu fyrsta mark leiksins. Það kom á 33. mínútu með stórglæsilegu skoti utan teigs og Sandor Matus í marki KA kom engum vörnum við. Aðeins þremur mínútum síðar voru gestirnir nálægt því að bæta við öðru marki en Sandor gerði vel í marki heimamanna er hann varði skot af stuttu færi. 

Staðan í hálfleik 1-0 fyrir gestina.

Víkingur hóf seinni hálfleikinn af krafti og strax á 48. mínútu áttu gestirnir þrumuskot í þverslána fyrir utan teig. Tíu mínútum síðar átti Víkingur skalla rétt yfir mark KA- manna eftir hornspyrnu og heimamenn í bullandi í vandræðum. KA fór þó að sækja sig í veðrið þegar líða tók á seinni hálfleikinn. Orri Gústafsson, sem nýlega hafði komið inná sem varamaður, fékk sannkallað dauðafæri til þess að jafna leikinn fyrir heimamenn á 60. mínútu þegar Andri Fannar Stefánsson átti góða stungusendingu inn fyrir vörn gestanna og Orri var kominn í ákjósnalegt færi en hitti boltann skelfilega og laflaust skotið fór framhjá markinu.

Það var svo á 83. mínútu leiksins að heimamönnum tókst að jafna metin. Arnar Már Guðjónsson fékk þá boltann skoppandi á móti sér fyrir utan teig gestanna og hann lét vaða markið og boltinn fór þverslána og inn. Glæsilegt mark og staðan jöfn,1-1.

Það var svo Orri Gústafsson sem skoraði sigurmarkið í leiknum þegar komið var fram í uppbótartíma. Dean Martin átti þá sendingu fyrir mark Víkings og Orri kastaði sér fram og skallaði boltann í netið. Lokatölur á Akureyrarvelli, 2-1 sigur KA, sem eftir leikinn hefur 32 stig í 5. sæti deildarinnar en Þór fylgir fast á eftir með 31 stig í 6. sæti deildarinnar.

Nýjast