KA endaði tímabilið með öruggum sigri

KA endaði tímabilið í 1. deild  karla í knattspyrnu með stæl er liðið lagði BÍ/Bolungarvík 3-0 á Akureyrarvelli í dag. Heimamenn voru heilt yfir betri í leiknum fyrir utan fyrstu tuttugu mínúturnar. Dan Howell, Davíð Rúnar Bjarnason og Guðmundur Óli Steingrímsson skoruðu mörk KA í leiknum.

Það viðraði vel til knattspyrnuiðkunnar í veðurblíðunni á Akureyri í dag. Gestirnir komu ágætlega stemmdir til leiks og ef ekki hefði verið fyrir meistaramarkvörslur Sandor Matus í marki KA hefði BÍ/Bolungarvík haft 2:0 forystu eftir tíu mínútna leik.

Það var eilítið gegn gangi leiksins að náðu heimamenn forystunni er Daniel Howell skoraði eftir skelfileg mistök Péturs Markan í öftustu línu. Sending kom fyrir mark gestanna þar sem Pétur ætlaði að hreinsa frá en hitti ekki boltann. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Howell sem tók við boltanum og lagði hann í netið.

Staðan 1:0 í hálfleik.

Davíð Rúnar Bjarnason kom inn á sem varamaður í lið KA snemma í fyrri hálfleik og hann skoraði annað mark heimamanna á 70. mínútu eftir góðan undirbúning frá Guðmundi Óla Steingrímssyni. Það var svo Guðmundur sjálfur sem skoraði þriðja markið tíu mínútum fyrir leikslok með föstu skoti inn í teig og öruggur sigur KA-manna í höfn.

KA endar í áttunda sæti deildarinnar með 29 stig en BÍ/Bolungarvík í sjötta sæti með 31 stig.

 

Nýjast