Jónína Rós gefur kost á sér í 1. eða 2. sæti hjá Samfylkingunni

Jónína Rós Guðmundsdóttir, framhalsskólakennari og formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1. - 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Hún er fimmtug, þriggja barna móðir og býr á Egilsstöðum með tveimur yngri börnum sínum.  

Jónína Rós er fædd og uppalin í Hafnarfirði, lauk kennaranámi við KHÍ vorið 1982 og flutti þá um haustið á Hallormsstað og  hóf kennslu við Hallormsstaðaskóla. Þar starfaði hún til ársins 2001 er hún flutti til Egilsstaða og hefur síðan kennt síðan við Menntaskólann á Egilsstöðum.   Jónína Rós hefur lokið BA prófi í sérkennslufræðum og er nú í mastersnámi í þeirri grein.

Hún situr í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs og hefur gegnt formennsku í Skipulags- og byggingarnefnd og verið formaður bæjarráðs frá áramótum 2007.  Áður hafði hún setið í fræðslunefnd og er nú stjórnarformaður Vísindagarðsins á Egilsstöðum og nýsköpunarsjóðsins Fjárafls sem styrkir nýsköpunarstarf í dreifbýli Fljótsdalshéraðs, auk þess er hún formaður Svæðisráðs um málefni fatlaðra á Austurlandi, situr í Umferðarráði og Samgöngunefnd sambands sveitafélaga á Austurlandi.

Jónína Rós á sæti í flokkstjórn Samfylkingarinnar og í varastjórn kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi.

Nýjast