Tónlistarmaðurinn og hagfræðingurinn Jón Jónsson ætlar að fræða norðlensk ungmenni um fjármál á líflegan hátt á Hótel Kea á Akureyri í kvöld, mánudaginn 2. apríl. Húsið opnar kl. 19.00 en fundurinn hefst kl. 19.30. Jón hélt í síðustu viku fræðslufund fyrir fullum sal í Arion banka, Borgartúni 19, sem heppnaðist afar vel og því var ákveðið að endurtaka leikinn fyrir norðan. Jón, sem notið hefur mikilla vinsælda fyrir tónlistarhæfileika sína, er menntaður hagfræðingur frá Boston University og getur því útskýrt ýmis flókin mál tengd fjármálum á einfaldan máta. Með hagfræðimenntunina bakvið músíkalskt tóneyrað ætlar hann á skemmtilegan hátt að ræða fjármál við fermingarbörn á Hótel Kea en fyrir ekki svo mörgum árum stóð hann sjálfur í sporum fermingarbarns.
Helstu atriði sem Jón fer yfir eru:
Hvað eru peningar?
Hvernig á að spara?
Að læra að velja og hafna
Peningar og hamingja
Í lok fundar mun Jón slá á létta strengi og taka nokkur lög. Boðið verður upp á gos og pítsu. Öll fermingarbörn eru sérstaklega velkomin ásamt foreldrum sínum, segir í fréttatilkynningu.