Jólasöngvakan er nokkurs konar söngferðalag fyrir alla fjölskylduna sem leiðir áheyrendur um bæði létta, skemmtilega, hátíðlega en umfram allt þjóðlega jólasöngvahefð okkar Íslendinga. Enginn aðgangseyrir er á söngvökuna en þeir sem eru aflögufærir geta styrkt Mæðrastyrksnefd með frjálsu framlagi á staðnum. Takamarkað sætapláss er í gömlu sveitakirkjunni en þröng mega sáttir sitja.
Gömlu jólatrjánum á Minjasafninu hefur fjölgað enn frekar og ágætur skógur á íslenskan mælikvarða er sprottinn upp í stemningu liðinnar tíðar í sýningunni; Akureyri - bærinn við Pollinn. Jólatrén eru í eigu Eyfirðinga. Margir þeirra skreyta enn heimili sín með þessum heimasmíðuðu jólatrjám sem eru allt í senn skemmtileg, hátíðleg og jafnvel á stundum undarleg á að líta. Öll eiga þau það sammerkt að hafa veitt gleði á jólunum á því heimili sem þau hafa staðið og gera enn. Á sýningunni; Allir krakkar, allir krakkar - líf og leikir barna, má nú sjá gamlar jólalegar ljósmyndir frá Akureyri, jólakort liðinna tíma, jólaskraut og síðast en ekki síst ófá leikföng sem vafalaust hafa veitt börnum, sem í dag eru mömmur og pabbar, afar og ömmur eða jafvel langafar og langömmur, mikla gleði á aðfangadagskvöld. Einnig stendur sýningin; Barnadraumar, enn yfir en þar er skyggnst inn í draumaheim barna.
Fjölbreytta og forvitnilega skemmtun fyrir alla fjölskylduna má því sækja á Minjasafnið á Akureyri. Safnið er opið 19. og 20. desember kl 14-16. Enginn aðgangseyrir er á safnið í tilefni jólanna.