Jólamarkaður í Skógarlundi um næstu helgi

Jólamarkaðurinn í Skógarlundi verður haldinn um helgina, en um 45 einstaklingar með langvarandi stuð…
Jólamarkaðurinn í Skógarlundi verður haldinn um helgina, en um 45 einstaklingar með langvarandi stuðningsþarfir koma daglega í þjónustu þar í formi vinnu og virkni.

Jólamarkaðurinn í Skógarlundi verður haldinn um næstu helgi, 2. og 3 desember. Opið verður á föstudag frá 14 til 16 og laugardag frá 11 til 16.Vörurnar verða einnig í boði á Glerártorgi í næstu viku eða dagana 28. og 29. nóvember frá kl. 13 til 15.30.

 

„Með því að bjóða fólk velkomið á markaðinn langar okkur að auka sýnileika og tengsl við samfélagið,“ segir Ragnheiður Júlíusdóttir forstöðumaður Skógarlundar, miðstöðvar virkni og hæfingar á Akureyri. Þar er rekin verslun sem opin er  alla virka daga milli kl. 9 og 15.30.

Íí  Skógarlundi er einstaklingum  með langvarandi stuðningsþarfir boðin þjónusta í formi vinnu og virkni. Daglega koma 45 einstaklingar á hæfingastöðina og boðið er upp á hálfs dags þjónustu annað hvort fyrir eða eftir hádegi. 

Skógarlundi er skipt upp í sex aðal starfsstöðvar sem eru: Skapandi starf, vinnuþjálfun, tölvur og rofar, smíðar og handverk, gagnaeyðing og hreyfing. Aðrar starfsstöðvar eru: Tjáskipti, skynörvun og reynsluboltar. „Öllum stendur til boða að fara á allar starfsstöðvarnar og markmiðið með því er að auka fjölbreytni og að geta mætt þörfum allra sem best,“ segir Ragnheiður. „Í skapandi starfi, smíðum og á tjáskiptastöð búum við til vörur sem seldar eru á jóla – og vormörkuðum okkar.“

Hugmyndin á bak við vörurnar sem búnar eru til í Skógarlundi er vinna og virkni „og að allir fái tækifæri til að skapa og upplifa ánægju af því að vinna með margskonar efni og áhöld,“ segir hún.  Verkefnin séu mjög fjölbreytt og markmiðið að allir geti tekið þátt. Flest verkanna eru samvinnuverkefni og því margir sem leggja hönd á hvert listaverk sem framleitt er.


Athugasemdir

Nýjast