Jóhann: Við hættum aldrei

Jóhann Helgi Hannesson var hetja Þórs í kvöld er norðanmenn unnu Keflavík 2:1 á Þórsvelli í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Jóhann skoraði sigurmark leiksins þremur mínútum fyrir leikslok og tryggði heimamönnum mikilvæg þrjú stig í fallbaráttunni. Hann var að vonum sáttur við sína frammistöðu í leiknum. „Ég náði að skora og tryggja okkur stigin þannig að það er ekki annað hægt en að vera sáttur. Það er alltaf gaman að taka stig á heimavelli,” sagði Jóhann við Vikudag eftir leik.

 

Jóhann var þokkalega sáttur við frammistöðu Þórs í leiknum sem léku afar vel í fyrri hálfleik.

„Við byrjuðum þetta ágætlega en fengum svo á okkur mark. Mér fannst við vera ofan í fyrri hálfleik og svo var partur í seinni hálfleik þar sem við misstum þetta í barning en eins og oft áður að þá náum við að koma til baka. Við höfum trú á því að við getum unnið alla leiki hérna og við hættum því aldrei fyrir dómarinn flautar leikinn af,” sagði Jóhann.

Willum Þór Þórsson þjálfari Keflavíkur var ekki alveg jafn sáttur eftir leikinn og vildi meina að löglegt mark hefði verið dæmt af Keflvíkingum.

„Þetta var baráttuleikur og við stóðum ekki vaktina í lokin og þeir náðu nýta sér það. Það reyndist okkur dýrt. Við skoruðum gott mark í seinni hálfleik og það er óskiljanlegt að markið hafi verið dæmt af. Við sýndum vilja til þess að taka stigin þrjú og það var dýrt að standa ekki vaktina í restina,” sagði Willum Þór.

Nýjast