Jóhann tryggði Þór sigur á Þórsvelli
Þór innbyrti mikilvægan sigur í kvöld er liðið lagði Keflavík að velli, 2:1, á Þórsvelli í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Keflavík var betra liðið í þeim seinni. Hilmar Geir Eiðsson kom Keflavík yfir snemma leiks en Ármann Pétur Ævarsson jafnaði fyrir Þór fyrir hlé. Það var svo Jóhann Helgi Hannesson sem skoraði sigurmarkið fjórum mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma. Með sigrinum er Þór komið með 11 stig í tíunda sæti deildarinnar, en Keflavík hefur 14 stig í áttunda sæti.
Leikurinn var nokkuð jafn í byrjun en Þórsarar fengu þó betri færi. Jóhann Helgi Hannesson fékk fyrsta færi leiksins strax á 6. mínútu. Boltinn datt þá óvænt fyrir Jóhann í teignum sem þrumaði boltanum viðstöðulaust yfir. Jóhann var svo aftur á ferðinni fimm mínútum síðar er hann átti magnaða sprett upp að endamörkum. Jóhann stakk Guðjón Árna Antoníusson varnarmann Keflavíkur af og var kominn einn í gegn en náði ekki nægilegu góðu skoti sem Ómar Jóhannsson varði auðveldlega í marki Keflavíkur.
Það var svo í næstu sókn sem Keflavík komst yfir. Hilmar Geir Eiðsson fékk þá boltann í teignum eftir að boltinn hafði hröklast af Inga Frey Hilmarssyni varnarmanni Þórs og Hilmar renndi boltanum í gegnum klofið á Birni Hákoni Halldórssyni í marki Þórs. Staðan 0:1.
Þórsarar sóttu í sig veðrið og Ármann Pétur Ævarsson jafnaði metin fyrir heimamenn á 27. mínútu. Gunnar Már Guðmundsson átti sendingu inn í teig frá hægri kanti og Ármann Pétur henti sér fram og skallaði boltann í netið. Vel gert hjá Manna og staðan 1:1.Hvorugt liðið fékk bitastætt færi það sem eftir lifði hálfleiksins en Keflavíkingar voru þó aðgangsharðari við markið.
Staðan 1:1 í hálfleik.
Bæði lið komu vel stemmd inn í seinni hálfleikinn og sköpuðu sér nokkur hálffæri í byrjun. Leikurinn fór þó meira að einkennast af hörðum tæklingum en fallegri knattspyrnu þegar líða tók á hálfleikinn og til marks um það þurftu fjórir leikmenn að yfirgefa völlinn vegna meiðsla, þar af þrír á börum.Þórsarar voru nálægt því að taka forystuna á 57. mínútu er Aleksandar Linta átti skot sem var varið í þverslána. Skömmu síðar var Andri Steinn Birgisson kominn í fínt færi en hann var búinn að spóla sig framhjá markverði Þórs en Aleksandar Linta var mættur í öftustu línu og varði slakt skot frá Andra. Keflavík skoraði mark á 77. mínútu sem var dæmt af vegna brots.
Þegar hér var komið við sögu voru Keflvíkingar betri aðilinn og líklegri til þess að taka forystuna. Það voru hins vegar heimamenn sem náðu forystunni á 87. mínútu. Atli Sigurjónsson sendi boltann fyrir markið úr aukaspyrnu vinstra megin þar sem Jóhann Helgi Hannesson var mættur og skoraði af stuttu færi. Staðan 2:1 og það gegn gangi leiksins þar sem gestirnir voru búnir að vera mun líklegri.
Keflavíkingar pressuðu í lokin en heimamenn héldu út leikinn og mikilvæg þrjú stig hjá Þór.
Lokatölur 2:1.