Jóhann Helgason í raðir KA á ný

Gunnar Níelsson, formaður knattspyrnudeildar KA, og Jóhann Helgason við undirritunina í dag.
Gunnar Níelsson, formaður knattspyrnudeildar KA, og Jóhann Helgason við undirritunina í dag.

Miðjumaðurinn Jóhann Helgason gekk í dag í raðir KA, síns uppeldisfélags, á lánssamningi frá Grindavík og mun spila með liðinu í 1. deildinni í sumar en þetta kemur fram á vef KA. Samningur við Jóhann var undirritaður í KA-heimilinu í dag. Jóhann spilaði með KA upp allra yngri flokka og á að baki 51 meistaraflokksleik í efstu deild, 1. deild og bikar með KA á árunum 2002-2006. Þá gekk hann til liðs við Grindavík og hefur síðan spilað þar samtals 126 leiki, þar af spilaði hann 24 leiki á liðnu keppnistímabili með Grindvíkingum í Valitor-bikarnum og Pepsídeildinni. Í þessum 177 meistaraflokksleikjum hefur Jóhann skorað 21 mark. Þá á hann að baki fimm landsleiki á árunum 2001-2003 með U-18, U-19 og U-21 ára landsliðum Íslands.
 
„Mér fannst vera kominn tími á að spila aftur með mínu uppeldisfélagi og það er minn vilji að taka þátt í því af krafti að rífa klúbbinn upp á þann stall sem ég tel að hann eigi að vera. Vissulega er ég af mikilli KA-fjölskyldu og ég neita því ekki að hafa orðið fyrir töluverðum þrýstingi úr ýmsum áttum að koma aftur og spila með KA. Mér finnst ég núna merkja mikinn metnað hjá félaginu að gera góða hluti í fótboltanum og ég hef fulla trú á því sem er verið að gera. Ég er ekki að koma í KA til þess að slappa af, ég vil og ætla mér af krafti að leggja mitt af mörkum til þess að koma félaginu á réttan stað. Ég tel enga ástæðu til annars en að stefna að því næsta sumar að koma KA upp í efstu deild. Þar á klúbburinn heima. Til þess að það geti gerst þurfa allir að leggjast á eitt – þjálfarar, leikmenn, stjórn, bakhjarlar og síðast en ekki síst stuðningsmenn. Nú verða allir að taka þátt af krafti í þessu átaki,"  sagði Jóhann á heimasíðu KA.

Nýjast