Jan hættir sem framkvæmdastjóri Hvalasafnsins

Halldór Gíslason og Jan Klitgaard (aftari), ekki fjarri því að vera í hvalsmaga eins og Jónas forðum…
Halldór Gíslason og Jan Klitgaard (aftari), ekki fjarri því að vera í hvalsmaga eins og Jónas forðum daga. Mynd: Heiðar Kristjánsson.

Jan Aksel Klitgaard, hefur sagt upp störfum sem framkvæmdastjóri  Hvalasafnsins á Húsavík, starfið hefur þegar verið auglýst laust til umsóknar og 15-20 hafa sótt um. Enda segir Jan að þetta sé mjög fjölbreytt og spennandi starf. En hversvegna ákvað hann að hætta? 

„Þetta var einfaldlega of mikið og vinnuálag mun meira en ég hafði séð fyrir þegar ég tók við starfinu. Það var í raun enginn tími aflögu til að sinna fjölskyldunni og öðrum hugðarefnum, þannig að þetta var niðurstaðan hjá mér og ákvörðun sem ég er sáttur við. Sem betur fer verður álagið minna hjá þeim sem tekur við, það hefur verið fjölgað starfsfólki og svo er mikið stórverkefni að baki í tengslum við steypireyðargrindina sem tók mikinn tíma, ásamt og með hinu svokallaða Bedford verkefni.“ 

Jan hafði gert ráð fyrir að hætta í byrjun júní, en féllst á að vinna fram í september, enda fer nú mesti annatími ársins í hönd á Hvalsaafninu. En hvað hyggst hann taka sér fyrir hendur að því loknu? 

„Það er svo sem ekkert ákveðið. En  ég hef verið í háskólanámi í Þjóðfræði, með norræna trú sem sérsvið og líklega fer ég suður um áramótin og tek lokaönnina í þjóðfræðinni.“ 

Jan lagði áherslu á að hann væri ekki að hætta vegna misklíðar af nokkru tagi, starfið hefði einfaldleg ekki hentað honum. „Hvalasafnið á heldur betur framtíðina fyrir sér og á bara eftir að vaxa og dafna. Þar er frábært starfsfólk, Huld og Halldór Jón og nýr framkvæmdastjóri tekur við á góðum og spennandi vinnustað.“ Sagði Jan Aksel. JS 

Nýjast