Rekstur Menningarfélags Akureyrar skilaði 2,6 milljóna króna hagnaði eftir starfsár sem hófst 1. ágúst árið 2016 til sama tíma í ár samanborið við rúmlega 14 milljón króna tap af rekstri starfsársins á undan. Þessi jákvæði viðsnúningur í rekstri félagsins náðist þrátt fyrir að það bjó við 27,5 milljón króna niðurskurð á liðnu ári vegna fyrirframgreiðslu sem fékkst frá Akureyrarbæ í fyrra.
Þuríður Helga Kristjánsdóttir framkvæmastjóri Menningarfélags Akureyrar segir gleðilegt að tekist hafi að snúa taprekstri yfir í hagnað og bendir á að árangurinn sé ekki síst ánægjulegur í ljósi þess að fjárframlög til leiklistarsviðs hafi ekki fylgt vísitölu undanfarin 10 ár.
„Allt starfsfólk var meðvitað um að draga þyrfti úr útgjöldum og með sameiginlegu átaki tókst okkur að skila jákvæðri niðurstöðu þrátt fyrir að starfa á skertum framlögum. Á sama tíma náðum við að skapa ný samfélagsleg verðmæti með því að halda úti öflugu menningarstarfi,“ segir Þuríður Helga.