Jóhann Þorsteinsson skrifar
Eitt er það sem gerist ár hvert í lok mars sem alltaf vekur hjá mér eftirvæntingu. Þá hefst skráning í sumarbúðir KFUM og KFUK en ég hef verið svo lánsamur í um áratug að hafa fengið að vera sjálfboðaliði í stjórn sumarbúða KFUM og KFUK að Hólavatni í Eyjafirði. Reyndar er það svo að ég hef verið með annan fótinn í sumarbúðum frá því að ég var sjálfur barn og fór ég 7 ára gamall í fyrsta sinn í sumarbúðir. Allar götur síðan hef ég tekið þátt með einum eða öðrum hætti og starfað á Ástjörn í Kelduhverfi, sumarbúðum þjóðkirkjunnar á Eiðum, í Vatnaskógi og við Hólavatn þar sem ég starfa í dag. Á þessum rúmlega þrjátíu árum hefur margt breyst og aðsókn í sumarbúðir hefur vaxið og dalað á víxl en síðastliðið sumar var það besta í 46 ára sögu Hólavatns ef tekið er mið af aðsókn.
Það er mikið verk að reka sumarbúðir svo vel sé og rekstrarmódelið gengur engan veginn upp fjárhagslega nema til komi mikil sjálfboðavinna. Við allar sumarbúðir KFUM og KFUK eru stjórnir sem skipaðar eru sjálfboðaliðum og það eru sjálfboðaliðar sem annast allan undirbúning á vorin, sinna viðhaldi og verklegum framkvæmdum, sækja um styrki og kynna starfið og fleira og fleira. Breytingar síðustu ára eru ekki síst þær að í dag eru formlega gerðar miklar kröfur til starfsfólks sumarbúða. Hjá KFUM og KFUK þarf allt starfsfólk sumarbúðanna að sækja námskeiðið Verndum þau, sem fjallar um hvernig bregðast skuli við vanrækslu eða ofbeldi gegn börnum. Þá eru haldin sérstök starfsmannanámskeið á vorin þar sem meðal annars er skyndihjálparnámskeið, fræðsla um þroska barna, raskanir og hegðunarfrávik og síðast en ekki síst er farið ofan í fræðsluefni sumarbúðanna en það er mikilvægur þáttur í hverjum flokki að börnin fái fræðslu um kristna trú og kristin gildi. Áður en til ráðningar kemur þurfa allir tilvonandi starfsmenn að undirrita samþykki fyrir því að leita megi upplýsinga um hreint sakarvottorð. Þannig er leitast við eftir fremsta megni að gera allt sem hægt er til að tryggja öryggi, velferð og vellíðan barnanna sem dvelja í sumarbúðunum.
Sumarið 2011 dvöldu tæplega þrjú þúsund börn í sumarbúðum KFUM og FUK og þar af voru 159 þeirra á Hólavatni. Í viðleitni okkar í stjórn Hólavatns til að kanna hug foreldra og barna til Hólavatns var send skoðanakönnun sem foreldrar voru hvattir til að svara í gegnum netið með reynslu barns síns í huga. Það ánægjulega við könnunina var að svörin sem bárust voru jákvæð. 84,7% svarenda fullyrtu að barninu þeirra hefði líkað dvöl á Hólavatni mjög vel og 86,4% töldu mjög eða frekar líklegt að þau myndu senda barnið sitt aftur á Hólavatn. Það sem þó gladdi okkur mest í stjórn Hólavatns var sú niðurstaða að 98,3% foreldra voru sammála þeirri fullyrðingu að barnið þeirra væri í öruggum höndum og aðbúnaður vel tryggður á Hólavatni.
Okkar fag er að skapa börnum jákvæða upplifun og góðar minningar. Dvöl í sumarbúðum KFUM og KFUK er góð gjöf sem foreldrar geta gefið börnum sínum og sjálfur get ég vitnað um að hafa lært og eignast svo margt í sumarbúðum sem er mér mikils virði í dag. En það er ekki sjálfgefið að börnin sjálf komi auga á þetta, ef þau hafa ekki fengið að upplifa og reyna á eigin skinni. Þess vegna er svo mikilvægt að við sem eigum þessa reynslu segjum öðrum frá og hvetjum vini og vandamenn til að senda börnin í sumarbúðir. Góður vitnisburður vina um ágæti sumarbúðanna er meira virði en keypt auglýsing. Vertu með í að byggja upp öfluga og jákvæða æsku.
Skráning í sumarbúðir KFUM og KFUK á Hólavatni hefst laugardaginn 24. mars og er vorhátíð í Sunnuhlíð kl. 12-15 og allir velkomnir. Nánar á www.kfum.is.
Höfundur er sviðsstjóri æskulýðssviðs KFUM og KFUK á Íslandi.