Jákvæð afkoma af rekstri Skútustaðahrepps
Um 7,9 milljóna hagnaður var af rekstri sveitarfélagsins Skútustaðahrepps á árinu 2015.
Rekstartekjur Skútustaðahrepps námu 408,8 milljónum króna. Þar af námu rekstartekjur A hluta 378,8 milljónum. Rekstargjöld fyrir afskriftir og fjármagnsliði námu 367,4 milljónum, þar af námu rekstargjöld A hluta 352,2 milljónum. Afskriftir, fjármagnsgjöld, tekjuskattur og hlutdeild minnihluta námu samtals 33,5 milljónum í samstæðu þar af 19,8 milljónir í A hluta.
Rekstarniðurstaða sveitarfélagsins var jákvæð um 7,9 milljónir þar af var rekstur A hluta jákvæður um 4,9 milljónir. Til samanburðar var halli í rekstri sveitarfélagsins árið 2014 rúmar 36 milljónir króna.
Mikill viðsnúningur hefur orðið í rekstri Skúustaðahrepps frá árinu 2014 þrátt fyrir talsverðar launahækkanir á árinu 2015. Útsvarstekjur vaxa umtalsvert milli ára í samræmi við jákvæða íbúaþróun. Rekstarkostnaður fyrir utan laun hefur lækkað mikið og nemur um 42,5% af tekjum. Þetta hlutfall var 53% árið 2014. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sveitarfélagsins.
„Ljóst er að ráðdeild og aðhald í rekstri ásamt auknum tekjum hafa leitt til þess að jafnvægi hefur náðst í rekstri sveitarfélagsins. Mikilvægt er að svo verði áfram og ganga áætlanir sveitarstjórnar útá að svo verði,“ segir jafnframt í tilkynningunni. /epe