Jafntefli hjá KA- Tap hjá Þór

KA og Fjarðarbyggð gerðu jafntefli nú í kvöld er liðin áttust við á Akureyrarvelli í 1. deild karla í knattspyrnu. Þá tapaði Þór á útivelli gegn Víkingi R. þar sem lokatölur urðu 2-1 sigur Víkings. Einar Sigþórsson skoraði mark Þórs í leiknum í kvöld. Í leik KA og Fjarðarbyggðar voru það heimamenn í KA sem höfðu tögl og haldir í leiknum nánast frá upphafi til enda.

Heimamönnum gekk þó illa að skapa sér marktækifæri í upphafi leiks. Fyrsta færi leiksins kom á 12. mínútu og það fengu heimamenn. Dean Martin átti þá góða sendingu inn í teig gestanna þar sem David Disztl var mættur á svæðið en hitti boltann illa og skotið fór framhjá markinu.

David Disztl var svo aftur á ferðinni fimm mínútum síðar þegar hann fékk boltann utarlega í teignum en máttlaust skot hans var varið. Á 33. mín var David Disztl enn og aftur á ferðinni. Dean Martin átti þá góða sendingu inn fyrir vörn Fjarðabyggðar, David tekur við boltanum og lætur vaða á markið en skot hans fer framhjá markinu.

Leikmenn Fjarðarbyggðar fengu fá færi í fyrri hálfleiknum. Besta færi þeirra kom á á 37. mínútu þegar Stefán Þór Eysteinsson náði góðu skoti rétt utan teigs en Sandor Matus í marki KA- manna varði vel í markinu. Staðan í hálfleik 0-0.

KA- menn hófu seinni hálfleikinn líkt og þeir enduðu þann fyrri, sóttu og sóttu en gekk illa að skapa sér marktækifæri. Á 62. mínútu átti Andri Fannar Stefánsson fínan sprett. Hann lék á nokkra varnarmenn gestanna og var við það að koma sér í fínt færi en missti boltann aðeins og langt frá sér og færið rann út í sandinn.

Á síðustu mínútu leiksins fengu gestirnir dæmda vítaspyrnu þegar Srdjan Tufegdzic ( Tufa ) braut á einum leikmanni Fjarðabyggðar. Sandor Matus í marki KA gerði sér hins vegar lítið fyrir og varði spyrnuna og bjargaði þar með stigi fyrir heimamenn.

Niðurstaðan því markalaust jafntefli. Eftir fjórar umferðir hefur KA sex stig í 4. sæti deildarinnar en Þór situr í 10. sæti með þrjú stig.

Nýjast