FH og Akureyri gerðu jafntefli í kvöld í mögnuðum handboltaleik í Kaplakrika í N1-deild karla. Lokatölur urðu 29-29. Stefán Guðnason sá til þess að Akureyringar fóru ekki tómhentir heim norður en hann varði vítakast Þorkells Magnússonar í stöðunni 29-29 þegar átta sekúndur voru eftir. Eftir leikinn munar ennþá tveimur stigum á liðunum, Akureyri hefur átta stig í fimmta til sjötta sæti en FH tíu stig í því þriðja.
Akureyringar byrjuðu leikinn af krafti og voru greinilega staðráðnir í því að hefna fyrir tapið í bikarnum á dögunum. Norðanmenn komust í 5-2 og 9-4. Sveinbjörn Pétursson var að verja vel og Akureyri beitti hraðaupphlaupum með þá Odd Gretarsson og Bjarni Fritzson fremsta meðal jafningja. Það gekk ekkert upp hjá FH þessar fyrstu mínútur og varnarleikur liðsins í molum. Heimamenn tóku hins vegar við sér þegar og með góðum leikkafla náðu þeir að jafna metin í 11-11 þegar átta mínútur voru til hálfleiks. FH komst svo yfir, 12-11, og algjör viðsnúningur í Kaplakrika og átti markvörður FH, Daníel Freyr Andrésson, stóran þátt í því. Leikurinn var stál í stál næstu mínútur en staðan í leikhlé, 14-14.
Seinni hálfleikurinn var í járnum framan af þar sem liðin skiptust á að hafa forystu og dró Guðmundur Hólmar Helgason vagninn í sóknarleik Akureyrar. FH komst tveimur mörkum yfir, 26-24, þegar ellefu mínútur voru til leiksloka en fram að þessu hafði munurinn haldist í einu marki frá því í stöðunni 11-11 í fyrri hálfleik. Akureyri náði að snúa leiknum sér í hag og komst yfir, 28-26, þegar sjö mínútur voru til leiksloka. Þegar ein mínúta var eftir var staðan jöfn, 29-29. Akureyingar voru með boltann og tóku leikhlé þegar 40 sekúndur voru eftir. Sú sókn rann út í sandinn og FH hljóp upp völlinn og Heiðar Þór Aðalsteinsson gerðist brotlegur og FH fékk víti þegar átta sekúndur voru eftir. Stefán nokkur Guðnason varði hins vegar vítið og reyndist hetja liðsins. Norðanmenn freistuðu þess að stela sigrinum en tíminn einfaldlega of naumur og lokatölur, 29-29, og verður það að teljast sanngörn niðurstaða.
Mörk FH: Þorkell Magnússon 8/5, Ólafur Gústafsson 8, Andri Berg Haraldsson 6, Ari Magnús Þorgeirsson 3, Sigurður Ágústsson 2, Halldór Guðjónsson 1, Hjalti Þór Pálmason 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 18/1.
Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 8/2, Guðmundur Hólmar Helgason 8, Oddur Gretarsson 5, Hörður Fannar Sigþórsson 4, Heimir Örn Árnason 3, Bergvin Þór Gíslason 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 17/1, Stefán Guðnason 3/1.