Jafnt á Þórsvelli í mögnuðum leik

Þór og FH gerðu í kvöld 2:2 jafntefli í stórskemmtilegum fótboltaleik á Þórsvelli, í lokaleik fimmtu umferðar í tvífrestuðum leik í Pepsi-deild karla. Þórsarar spiluðu seinni hálfleikinn manni færri, þar sem Ármann Pétur Ævarsson fékk rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks. Jóhann Helgi Hannesson og Þorsteinn Ingason skoruðu mörk Þórs í leiknum en Hannes Sigurðsson og Guðmundur Sævarsson skoruðu mörk FH. Þórsarar eru eftir leikinn komnir með sjö stig í tíunda sæti deildarinnar, en FH níu stig í sjötta sæti. 

Það var skarð fyrir skildi fyrir Þórsara að miðjumaðurinn Gunnar Már Guðmundsson var ekki í liði heimamanna, en þar sem hann er á láni frá FH var hann ekki gjaldgengur í leikinn.

Leikurinn fór fjörlega af stað á Þórsvelli og var nokkuð jafn. Góð stemmning var á vellinum en um 910 áhorfendur voru á vellinum og létu vel í sér heyra. Atli Guðnason fékk sannkallað dauðafæri fyrir gestina strax á fjórðu mínútu. Eftir háa sendingu inn í teig barst boltinn til Atla sem var sennilega kominn of nálægt markinu því skotið fór hátt yfir. Illa farið með gott færi hjá FH en heimamenn sluppu með skrekkinn. Atli varð fyrir meiðslum í færinu og þurfti að yfirgefa völlinn eftir tíu mínútna leik, en Ólafur Páll Snorrason kom inn á í hans stað.

Þórsarar fengu líka sín færi. Þorsteinn Ingason var nálægt því að koma Þór yfir eftir tíu mínútna leik en skalli hans eftir hornspyrnu fór hárfínt framhjá markinu. Sveinn Elías Jónsson var svo nálægt því að komast einn í gegn á 35. mínútu, en Freyr Bjarnason kom þá með magnaða tæklingu og bjargaði hugsanlega marki hjá heimamönnum. Þórsarar voru nokkuð sprækir á þessar mínútur og skömmu síðar var Sveinn Elías aftur á ferðinni. Hann átti þá baneitraðan jarðarbolta inn í teiginn þar sem Sigurður Marinó Kristjánsson var mættur en Gunnleifur Gunnleifsson var einhverjum sekúndubrotum á undan honum í marki FH.Þórsarar urðu svo fyrir miklu áfalli rétt fyrir hálfleik. Ármann Pétur Ævarsson braut þá á Matthíasi Vilhjálmssyni og fékk að líta sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt. Dómurinn var frekar harður en svo virtist sem Ármann hafi óvart stigið á Matthías. Dómarinn hafði verið frekar hliðhollur FH fram að þessu og var því ekki vinsælasti maðurinn í stúkunni á Þórsvelli. Þórsarar sáu því fram á erfiðan seinni hálfleik manni færri, eftir flottan fyrri hálfleik.

Staðan 0:0 í hálfleik. 

Jóhann Helgi Hannesson  kom inn í lið Þórs í seinni hálfleik fyrir David Disztl. FH-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn með látum, eins og við var að búast einum fleiri. Ólafur Páll Snorrason áttu fína sendingu fyrir af vinstri vængnum þar sem boltinn rataði á kollinn á Hannes Sigurðsson sem skallaði rétt framhjá. Þórsarar voru ekki af baki dottnir og voru nálægt að koma boltanum í netið á 50. mínútu. Sigurður Marinó Kristjánsson átti þá fínan sprett upp miðjan völlinn, sendi laglega sendingu inn fyrir vörnina á Atla Sigurjónsson sem var rétt á undan Gunnleifi Gunnleifssyni í marki FH í boltann, en Atli var ekki í jafnvægi og skotið lélegt og ekki á ramman.Í næstu sókn kom svo fyrsta mark leiksins og það gerði Hannes Sigurðsson með skalla, eftir sendingu frá Viktori Erni Guðmundssyni. Staðan 0:1.

Þórsarar létu ekki deigan síga og það tók þá aðeins nokkrar mínútur að jafna leikinn og það gerði varnamaðurinn Þorsteinn Ingason af öllum mönnum. Aleksandat Linta fékk boltann eftir að hafa tekið aukaspyrnu þar sem boltinn var skallaður í burtu, þaðan barst boltinn til Þorsteins, sem afgreiddi boltann í netið. Staðan 1:1 og allt opið á Þórsvelli.Einum færri tókst Þórsurum að komast yfir á 66. mínútu. Atli Sigurjónsson átti sendingu á Svein Elías Jónsson sem sendi boltann á Jóhann Helga Hannesson, sem var kominn einn inn fyrir og skoraði af mikilli yfirvegun. Staðan 2:1 á Þórsvelli, hreint ótrúlegar tölur og magnaður viðsnúningur hjá Þór einum færri. Björn Daníel Sverrisson átti skot í stöng skömmu síðar fyrir FH en heppnin með heimamönnum. Skömmu síðar átti Ólafur Páll Snorrason skot yfir markið úr dauðafæri. Magnaður leikur á Þórsvelli og allt í járnum þessar mínútur.

FH-ingar pressuðu stíft á lokamínútunum og það skilaði jöfnunarmarki á 90. mínútu, er Guðmundur Sævarsson skoraði eftir sendingu frá Ólafi Páli Snorrasyni. Hólmar Örn Rúnarsson var svo nálægt því að taka öll stigin fyrir gestina er hann skaut rétt framhjá á lokasekúndunum.

 

Lokatölur, 2:2.

Nýjast