Sú þjónusta sem heilbrigðisstofnanir og aðrar opinberar stofnanir hafa dregið úr og jafnvel hætt að veita með uppsögnum þessara 470 kvenna og öðrum aðhaldsaðgerðum eru nú störf sem mörg hafa færst inn á heimilin í landinu. Þar vinna oftar en ekki konur þau nú ólaunuð, því þarfir barna, aldraðra og sjúkra minnka ekki hvað þá hverfa þó þurfi að spara.
Rannsóknir hafa sýnt að konum er hættara en körlum við að festast í hinni svokölluðu fátæktargildru. Opinber gögn sýna að tekjur íslenskra kvenna eru að meðaltali 66% af heildartekjum íslenskra karla. Þær mega því síður við tekjumissi og eru lengur að jafna sig fjárhagslega aftur.
Það er áhyggjuefni að þær aðgerðir sem forsætisráðherra boðaði á dögunum virðast að mestu lúta að aukningu á störfum sem karlmenn skipa í meirihluta.
Við afgreiðslu fjárlaga og við önnur tækifæri varaði þingflokkur Framsóknar ásamt öðrum aðilum eins og Jafnréttisstofu við því að gætt yrði að hagsmunum beggja kynja við yfirvofandi niðurskurð. Kynjuð hagstjórn eins og núverandi ríkisstjórn, hin svokallaða velferðar- og jafnréttisstjórn, boðaði er greinilega einungis orðin tóm, því ekki verða aðgerðir þeirra til þess að rétta hlut kvenna þó síður sé, segir í ályktun Landssambands framsóknarkvenna.