Íslenskur sigur á Opna Norðurlandamótinu í knattspyrnu

Íslenska unglingalandsliðið í knattspyrnu, skipað leikmönnum 17 ára og yngri, sigraði á Opna Norðurlandamótinu, er liðið lagði Dani að velli í úrslitaleik á Þórsvellinum í dag. Eina mark leiksins skoraði KA-maðurinn Ævar Ingi Jóhannesson í fyrri hálfleik. Ísland átti tvö lið á mótinu en Ísland2 tapaði fyrir Noregi 1-2 í leik um bronsverðlaunin á Þórsvellinum.  

Ævar Ingi, hetja íslenska liðsins í úrslitaleiknum gegn Dönum, var að vonum ánægður með sigurinn og sigurmarkið sitt. "Við lögðum upp það að spila þéttan varnarleik og það tókst okkur að gera. Danirnir voru meira með boltann en sköpuðu sér engin færi. Við þurftum því bara eitt mark til vinna," sagði Ævar Ingi eftir leik. Aðspurður um markið sagði hann að Doddi herbergisfélagi sinn hafi verið að pressa einn leikmanna Dana, sá hafi ætlað að hreinsa en sparkaði boltanum í Dodda og af honum barst hann inn fyrir vörnina. "Þar náði ég boltanum og setti hann í fjærhornið." Íslenska liðið gerði jafntefli við Noreg í fyrsta leik en vann svo Færeyjar 3-0 og England 2-1 á leið í úrslitin.

Nýjast