Þá rekur Kjarnafæði salatgerð í Mosfellsbæ og er hluthafi í Norðanfiski á Akranesi og í sláturhúsum á Blönduósi og Vopnafirði. Hjá Kjarnafæði og tengdum fyrirtækjum vinna samtals um 240 manns. "Þetta er á við netta stóriðju," segir Auðjón Guðmundsson markaðsstjóri Kjarnafæðis. Hann segir að rekstur Kjarnafæðis hafi verið réttu megin gegnum tíðina, þótt vissulega séu blikur á lofti nú um stundir líkt og hjá öðrum fyrirtækjum í landinu. Hann segir að ekki hafi komið til uppsagna á starfsfólki eða skerðingu á starfshlutfalli og hann vonast til að ekki komi til þess. "Þetta er stöðug barátta og maður þakkar bara fyrir hvern dag. Okkar rekstur byggist líka á því að okkar viðskiptavinum gangi vel."
Saltkjötið á borð landsmanna
Landsmenn hafa verið duglegir við þorramatinn síðustu vikur en nú er þorranum að ljúka og handan við hornið er sprengidagur. Það er því nóg að gera í saltkjötsframleiðslu hjá fyrirtæki eins og Kjarnafæði þessa dagana. Auðjón segir að sala á saltkjöti byrji mjög vel og hann er bjartsýnn á að salan verði ekki minni en á undanförnum árum. "Fólk vill frekar íslenskt og sækir í heimilismat. Saltkjötið er heppilegt í kreppunni, ódýr en góður matur, auk þess sem fólk er að borða með kjötinu, baunir, grænmeti og fleira. Bolludagurinn er einnig framundan og þá er einnig mikil sala í kjötfarsi og steiktum kjötbollum."
Auðjón segir að töluverð breyting hafi orðið á vinnslu saltkjötsins, það sé nú léttsaltaðra en áður og þá séu margir farnir að setja beikon í baunirnar. "Þetta er mjög vinsæll matur og þótt aðal vertíðin sé núna, er saltkjöt að seljast allt árið. Þessar tvær vikur fyrir sprengidag höfum við verið að selja um 40-50 tonn og töluvert af beikoni og ég vona salan verði svipuð í ár. Við erum með þrjá flokka, frá ódýru kjöti og upp í sérvalið en fólk er svolítið að blanda þessu saman og margir hafa mjög gaman að því að prófa sig áfram með uppskriftir við eldamennskuna heima. Það á vafalaust eftir að halda áfram og jafnvel aukast."
Fólk nýtir matinn betur
Auðjón segir að almennt sé fólk farið að sækja meira í hefðbundin íslenskan mat, því þegar upp er staðið sé hann á mjög hagstæðu verði. "Salan hjá okkur jókst á síðasta ári miðað við árið á undan en samsettingin hefur breyst og þessi ódýrari vara selst meira en sú dýrari. Það er eðlilegt að fólk skoði þessi mál vandlega og við höfum einnig orðið varir við það að fólk er að nýta matinn betur og er ekki að henda afgöngum og það er jákvætt. Mötuneyti eru stórir viðskiptaaðilar hjá okkur og þar er líka verið að leita leiða til hagræðingar."
Sem fyrr segir er starfsemi Kjarnafæðis bæði á Akureyri og á Svalbarðseyri og þar er stefnt að byggja við kjötvinnslu fyrirtækisins. Auðjón segir að undirbúningur sé í gangi og að stefnt sé að því að hefja byggingarframkvæmdir þegar aðstæður leyfa, þó það sé galinskapur að byggja upp á landsbyggðinni fremur en höfuðborgarsvæðinu, þegar flutningskostnaðurinn er jafn hár og hann er nú. Það megi segja að flutningskostnaðurinn sé refsiskattur á framleiðslufyrirtæki á landsbyggðinni.