Íslenskir sjómenn vilja aðeins það besta
„Já það geri ég hiklaust. Einungis sérpantað harðstál er notað í framleiðsluna, enda eru íslenskir sjómenn mjög kröfuharðir. Bobbingarnir þurfa til dæmis að þola mikið dýpi og álag, þannig að vanda þarf sérstaklega allt framleiðsluferlið. Kaupendur eru að aðallega íslensk útgerðarfyrirtæki, en það kemur fyrir að pantanir berast frá erlendum fyrirtækjum, sérstaklega í Kanada. Tækjakosturinn er nokkuð góður, enda nauðsynlegt svo framleiðslan standist kröfur markaðarins."
Kristján segir að svipaður fjöldi bobbinga sé framleiddur ár frá ári. „Það er vissulega alltaf eitthvað um sérsmíði, enda kappkostum við að eiga gott samstarf við sjómenn, netaverkstæði og aðra viðskiptavini. Meðhöndlun stálsins krefst víðtækrar þekkingar starfsmanna fyrirtækisins á efninu, auk þess sem við höfum lagt áherslu á að hafa góðan tækjakost. Þannig tryggjum við vandaða framleiðslu."
Stáldeildin hefur hafið framleiðslu á bobbingum úr gúmmíi sem hafa hlotið góðar viðtökur hjá sjómönnum. „Við skerum vinnuvéladekk niður í hlemma og setjum þá upp á röð, þannig að þeir vinna svipað og stálbobbingarnir. Nokkrar útgerðir hafa keypt þessa nýju framleiðslu og þeir fá góða umsögn sjómanna. Ég bind vonir við að þessi framleiðsla okkar nái frekari útbreiðslu, enda hér á ferðinni umhverfisvæn framleiðsla, auk þess sem verðið er hagstætt. Þessir bobbingar henta líka vel um borð í tréskipum, þótt þeim fari fækkandi hér á landi."
Millibobbingar
"Við höfum framleitt millibobbinga úr gúmmíi í mörg herrans ár, útgerðirnar kaupa þá aftur og aftur, enda slitsterkir og endingargóðir. Rasp sem fellur til af gömlum hjólbörðum við sólningu er notað til framleiðslunnar. Þessi framleiðsla okkar stenst fyllilega þær kröfur sem gerðar eru, enda þýðir ekkert annað en að bjóða íslenskum sjómönnum aðeins það besta. Ég hef enga ástæðu til annars en að vera bjartsýnn á framtíðina, enda þekkja sjómenn okkar vörur í þaula og eru ánægðir með framleiðsluna," segir Kristján framkvæmdastjóri Stáldeildarinnar og Gúmmívinnslunnar á Akureyri.