Íslenskar kartöflur eru á þrotum

„Það eru allar íslenskar kartöflur svo gott sem búnar,“ segir Bergvin Jóhannsson bóndi á Áshóli og formaður Félags kartöflubænda. Uppskera í fyrrahaust var heldur lakari en verið hefur og því hefur gengið hratt á íslensku kartöflurnar í vetur. Bergvin segir að víða séu kartöflubændur búnir með sínar birgðir, m.a. hann og fleiri í Grýtubakkahreppi, einhverjir eigi smá slatta eftir og eru að ganga frá síðustu sendingunum í verslanir um þessar mundir. „Það verður eitthvað til af íslenskum kartöflum í verslunum út mánuðinn, en síðan tekur innflutningurinn alfarið við,“ segir Bergvin. Hann nefnir að kartöflubændur í Þykkvabæ hafi nýtt íslenska framleiðslu í vinnslukartöflur nú á liðnu hausti en árið á undan notast við innfluttar kartöflur og það sé einnig skýring á því hve snemma íslenskar kartöflur hverfi úr hillum verslana.

Bergvin segir að almennt sé minna til af kartöflum í heiminum nú en oft áður og telur að erfitt geti reynst að verða sér úti um nægilegt magn, birgðastaða hvarvetna sé minni nú en hún hafi áður verið.  „Það gildir nánast um öll matvæli, sýnist mér samkvæmt skýrslum þar um,“ segir hann.  Á góðum sumrum má vænta þess að íslenskar kartöflur komi í verslanir í lok júlí eða byrjun ágúst.

Nýjast