Íslenska sjávarútvegssýningin hefst í dag

„Já já, ég er kominn suður og ætla mér að skoða sýninguna, enda nauðsynlegt að fylgjast með tækninýjungum og framförum.  Ég byrja líklega fyrst á því að skoða básana sem eru með fiskvinnsluvélar og þar á eftir reyni ég að kynna mér nýjungar í dýptarmælum og fjarskiptabúnaði," segir Garðar Ólason útgerðarmaður í Grímsey sem rekur fyrirtækið Sigurbjörn fiskverkun.  

Sýningin er haldin í Smáranum í Kópavogi og er sú tíunda í röðinni. Hún nær til allra þátta í fiskveiðum í atvinnuskyni og er orðin umfangsmesta sýningin í greininni á norðurslóðum. Sýningarrýmið er um 13.000 fermetrar, bæði innan- og utanhúss. Um 500 fyrirtæki sýna allt það nýjasta á sviði fiskveiða í atvinnuskyni. Gestir á sýningunni árið 2008 voru liðlega 12.000 frá samtals um 50 þjóðlöndum.

Íslensku sjávarútvegsverðlaunin verða afhent í kvöld og fer athöfnin fram í Gerðasafni. Þau voru fyrst veitt árið 1988 og er ætlað að vekja athygli á því besta á sviði sjávarútvegs. Garðar vonast til að hitta marga kunningja og vini á sýningunni.

„Þetta er líka mannamót, þarna safnast saman áhugafólk um sjávarútveg þannig að ég hlakka mikið til spóka mig um í Smáranum, skoða sem flesta bása og spjalla við skemmtilegt fólk," segir Garðar.

Nýjast