Íslenska krulluliðið vann sigur á Grikkjum í fyrsta leik á EM

Krullulandslið Íslands, f.v. Hallgrímur Valsson, Kristján Bjarnason, Ólafur Hreinsson, Sævar Örn Sve…
Krullulandslið Íslands, f.v. Hallgrímur Valsson, Kristján Bjarnason, Ólafur Hreinsson, Sævar Örn Sveinbjörnsson og Gunnar H. Jóh

Krullulið skipað leikmönnum úr röðum Krulludeildar Skautafélags Akureyrar keppir þessa dagana fyrir Íslands hönd í C-keppni Evrópumótsins sem fram fer í krulluhöllinni í Tårnby í Kaupmannahöfn. Tårnby krulluhöllin er Íslendingum að góðu kunn, en þangað hefur krullufólk frá Akureyri oft farið til keppni og krullulið frá Tårnby komið til keppni á Akureyri.

Fyrsti leikur íslenska liðsins var fyrr í dag þegar okkar menn mættu Grikkjum. Leikurinn var mjög kaflaskiptur því íslenskaliðið vann fyrstu þrjár umferðirnar og staðan orðin 5-0. Þá snéru Grikkir við blaðinu, unnu næstu þrjár umferðir og komust yfir, 5-6. Íslendingar jöfnuðu í sjöundu og næstsíðustu umferðinni, 6-6. Grikkir virtust því vera með pálmann í höndunum því þeir áttu síðasta stein í lokaumferð leiksins, en Íslendingum tókst að hins vegar „stela" tveimur stigum og sigra, 8-6. Flottur sigur en Grikkir féllu úr B-keppninni í fyrra og spila nú í C-keppninni í fyrsta skipti.

Liðið leikur tvo leiki á morgun, laugardag. Fyrri leikur laugardagsins verður gegn Serbum kl. 10.00 að íslenskum tíma og síðan eru það Tyrkir kl. 18.30. Síðan eru það Slóvenar og Rúmenar á sunnudag, en báðar þjóðirnar taka nú þátt í Evrópumótinu í fyrsta skipti. Á mánudag mæta okkar menn liði Lúxemborgar og síðan Pólverjum og Litháum á þriðjudag. Tvö efstu liðin leika síðan úrslitaleik, en ávinna sér bæði rétt til þátttöku í B-keppni Evrópumótsins sem fram fer í Moskvu í byrjun desember.

Fyrirliði íslenska liðsins er Hallgrímur Valsson, en liðsmenn ásamt honum eru Kristján Bjarnason, Ólafur Hreinsson og Sævar Örn Steingrímsson. Með þeim í för sem þjálfari og liðsstjóri er Gunnar H. Jóhannesson.

Nýjast