Íslenska krulluliðið vann sigur á Grikkjum í fyrsta leik á EM

Krullulið skipað leikmönnum úr röðum Krulludeildar Skautafélags Akureyrar keppir þessa dagana fyrir Íslands hönd í C-keppni Evrópumótsins sem fram fer í krulluhöllinni í Tårnby í Kaupmannahöfn. Tårnby krulluhöllin er Íslendingum að góðu kunn, en þangað hefur krullufólk frá Akureyri oft farið til keppni og krullulið frá Tårnby komið til keppni á Akureyri.
Fyrsti leikur íslenska liðsins var fyrr í dag þegar okkar menn mættu Grikkjum. Leikurinn var mjög kaflaskiptur því íslenskaliðið vann fyrstu þrjár umferðirnar og staðan orðin 5-0. Þá snéru Grikkir við blaðinu, unnu næstu þrjár umferðir og komust yfir, 5-6. Íslendingar jöfnuðu í sjöundu og næstsíðustu umferðinni, 6-6. Grikkir virtust því vera með pálmann í höndunum því þeir áttu síðasta stein í lokaumferð leiksins, en Íslendingum tókst að hins vegar stela" tveimur stigum og sigra, 8-6. Flottur sigur en Grikkir féllu úr B-keppninni í fyrra og spila nú í C-keppninni í fyrsta skipti.
Liðið leikur tvo leiki á morgun, laugardag. Fyrri leikur laugardagsins verður gegn Serbum kl. 10.00 að íslenskum tíma og síðan eru það Tyrkir kl. 18.30. Síðan eru það Slóvenar og Rúmenar á sunnudag, en báðar þjóðirnar taka nú þátt í Evrópumótinu í fyrsta skipti. Á mánudag mæta okkar menn liði Lúxemborgar og síðan Pólverjum og Litháum á þriðjudag. Tvö efstu liðin leika síðan úrslitaleik, en ávinna sér bæði rétt til þátttöku í B-keppni Evrópumótsins sem fram fer í Moskvu í byrjun desember.
Fyrirliði íslenska liðsins er Hallgrímur Valsson, en liðsmenn ásamt honum eru Kristján Bjarnason, Ólafur Hreinsson og Sævar Örn Steingrímsson. Með þeim í för sem þjálfari og liðsstjóri er Gunnar H. Jóhannesson.