Íslensk aðalbláber og krækiber á markað

Skólabörn frá Dalvík og Árskógsandi við sólberjatínslu á Völlum nú í haust.
Skólabörn frá Dalvík og Árskógsandi við sólberjatínslu á Völlum nú í haust.

Berjabúið Vellir í Svarfaðardal hefur í samvinnu við fyrirtækin Í einum grænum ehf. og Emmessís ehf. markaðssett frosin aðalbláber og krækiber úr íslenskri náttúru, í 240 gramma öskjum, til matargerðar, til að borða sér eða með mat - til dæmis með sjálfri jólasteikinni. Sömuleiðis eru komin á markað ísblóm undir merkjum Valla, rjómaís með blöndu af aðalbláberjum og krækiberjum.

Þetta markar tímamót hjá Emmessís, því fyrirtækið hefur ekki áður notað ber úr íslenskri náttúru í framleiðslu sína. Emmess annast dreifingu varanna og þær eru seldar í verslunum um land allt. Berjabúið Vellir hefur hvatt til þess undanfarin ár að Íslendingar líti sér nær eftir berjum, nýti í eigin iðnaðarframleiðslu hið frábæra hráefni sem sjálf náttúra landsins hefur upp á að bjóða og gefi slíkum vörum tækifæri í samkeppni við innfluttar berjaafurðir. Berjabúið greiðir fólki fyrir að tína ber og vill færa út kvíar í þeim efnum - ef neytendur svara kallinu. Forsendur eiga að vera til þess að íslenski berjamóinn efli íslenskan iðnað, skapi störf og spari gjaldeyri, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast