Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Vittus Qujaukitsoq, utanríkisráðherra Grænlands, voru sammála um að efla samstarf landanna enn frekar. En þau ræddust við á símafundi 6. maí sl. Ráðherrarnir ræddu um samstarfið á grundvelli viljayfirlýsingar landanna frá árinu 2013 þar sem kveðið er á um aukið samstarf á sviðum sjávarútvegs, heilbrigðismála, ferðamála, viðskipta og heilbrigðisreglna við innflutning. Enn fremur samþykktu þau að setja á laggirnar vinnuhóp skipuðum sérfræðingum landanna á sviði flugmála til að kanna möguleika á að uppfæra loftferðasamning landanna; jafnframt á nánara samstarfi í því skyni að tryggja aukið öryggi í flugi og auka samvinnu flugvalla- og tollyfirvalda. Þetta kom fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
„Á fundinum upplýsti Lilja einnig um að íslensk stjórnvöld hefðu að undanförnu skoðað fyrirkomulag varðandi flutning grænlenskra ferðamanna á kjötvörum vegna áframhaldandi ferðalaga til annarra landa. Þess væri að vænta að leiðbeiningar yrðu gefnar út á næstunni. Jafnframt samþykktu ráðherrarnir að gefa út bækling með leiðbeiningum til grænlenskra ferðamanna um þær reglur sem gilda hér á landi um innflutning ferðamanna á matvælum,“ segir í tilkynningunni.
Þá kom einnig fram að ráðherrarnir staðfestu gagnkvæman vilja til að efla enn frekar samstarf milli landanna. Það getur meðal annars falist í því að miðla sérfræðiþekkingu milli landanna. Bæði löndin eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta á norðurslóðum og náin samvinna um málefni norðurslóða er til þess fallin að styrkja stöðu beggja landa. Jafnframt má telja að aukin viðskipti milli landanna yrðu báðum ríkjum hagstæð. /epe