Íslandsmótið í íshokkí rúllar af stað í dag
Íslandsmótið í íshokkí hefst í dag í bæði karla og kvennaflokki þegar leikið verður í Skautahöllinni á Akureyri. Skautafélag Akureyrar (SA) hefur titil að verja í bæði karla-og kvennaflokki.
Í karlaflokki er sú breyting á í vetur að liðunum fjölgar um eitt og verða fimm talsins. SA mun áfram tefla fram tveimur liðum, Víkingum og Jötnum, og þá mun Björninn einnig gera það sama og mun þeirra B-lið heita hinum skemmtilega nafni, Húnar. SA hefur hefur orðið fyrir þó nokkurri blóðtöku í sumar. Fyrirliði liðsins, Jón B. Gíslason, er farinn til Danmerkur, Ingólfur Elíasson til Svíþjóðar og Jóhann Már Leifsson til Bandaríkjanna. SA hefur ekki bætt við sig leikmönnum til að fylla þeirra skörð og þeirra bíður því erfitt verkefni í vetur í að verja titilinn.
„Það hefur vissulega eitthvað að segja að hafa misst þessa leikmenn en við erum engu að síður með sterkt lið,“ segir Sigurður Sveinn Sigurðsson leikmaður SA. Hann segir ekkert koma annað til greina en að halda bikarnum fyrir norðan. „Við höfum hampað titlinum í 15 skipti á síðustu 20 árum hérna á Akureyri og við lítum svo á að bikarinn eigi að heima hérna fyrir norðan.“
Á meðan SA hefur misst leikmenn í burtu hafa bæði SR og Björninn verið að styrkja sig. Hinn öflugi Daniel Kolar er kominn aftur í raðir SR ásamt landsliðsmanninum Snorra Sigurbjörnssyni. Einnig hafa þeir fengið Robbie Sigurdsson frá Bandaríkjunum, sem spilað hefur í unglingadeildum í Pittsburg.
Þá hefur Björninn endurheimt Akureyringinn Birki Árnason, auk þess að hafa fengið finnskan leikmann til liðs við sig. Aðspurður segir Sigurður að það stefni í jafnt og spennandi mót. „Þar sem bæði sunnanliðin hafa styrkt sig má gera ráð fyrir þeim sterkari en í fyrra og þetta gæti orðið óvenju jafnt í vetur,“ segir hann. SA Víkingar hefja leik í dag er þeir taka á móti Birninum kl. 16:30 í Skautahöllinni.
Í kvennaflokki mætast SA eldri og Björninn í Skautahöllinni kl. 19:00. SA er ríkjandi Íslandsmeistari og fyrirfram má búast við að bikarinn verði áfram fyrir norðan, en norðanstúlkur hafa haft mikla yfirburði í deildinni undanfarin ár. „Ég held að það þurfi eitthvað stórkostlegt að gerast til að við missum bikarinn frá okkur,“ segir Guðrún Kristín Blöndal leikmaður SA. „Það er nú samt mín von að þetta verði jafnara í ár en hefur verið. Það er ekkert gaman að rúlla þessu alltaf upp og vonandi að þetta verði bara spennandi í vetur.“ Ekki er enn komið nafn á eldra lið SA, sem hét Valkyrjur í fyrra. Yngra liðið, Ynjur, mun hins vegar halda sínu nafni.