Vegna endurbóta á húsnæði Íslandsbanka við Skipagötu 14 á Akureyri mun útibúið flytja tímabundið yfir götuna, í húsnæði Byrs við Skipagötu 9. Eins og fram hefur komið hafa Íslandsbanki og Byr sameinast og verður sameinuð starfsemi í framtíðinni í núverandi húsnæði Íslandsbanka. Flutningur á milli útibúanna hófst strax að loknum hefðbundnum vinnudegi í dag og mun ljúka um helgina og útibú Íslandsbanka verða opnað í Skipagötu 9 mánudaginn 6. febrúar. Þá hefur hin eiginlega sameining farið fram.
Gert er ráð fyrir að endurbótum í Skipagötu 14 ljúki í lok mars og verður útibúið þá flutt aftur yfir götuna. Guðný Helga Herbertsdóttir upplýsingafulltrúi Íslandsbanka segir að útibúið í Skipagötu 14 verði ekki stækkað í þessum endurbótum, það verði hins vegar nýtt betur og m.a. mun vinnustöðvum fjölga. Þetta eru tímabærar endurbætur en litlar sem engar endurbætur hafa verið gerðar á útibúinu í rúmlega 20 ár eða þegar Íslandsbanki varð til við sameiningu Alþýðubanka, Iðnaðarbanka, Útvegsbanka og Verzlunarbanka. Áður var Alþýðubankinn til húsa á Skipagötunni og voru litlar breytingar gerðar við fjórbankasameininguna árið 1990.Guðný segir að margir iðnaðarmenn komi að þessum breytingum og m.a. hafa verið gerðir samningar við smiði, rafvirkja, múrara, málara, pípara og blikksmiði. Húsnæði Byrs að Skipagötu 9 er hið glæsilegasta og hafa ýmsar hugmyndir verið nefndar varðandi nýtingu á því húsnæði í framtíðinni.
Guðný segir að Íslandsbanki hafi orðið var við mikinn áhuga á húsnæðinu enda sé staðsetning hússins mjög góð. Ekki hafi þó verið tekin endanleg ákvörðun um hvenær og hvernig húsnæðinu verður ráðstafað til framtíðar.