Íslandsbanki opnaði útibú sitt að Skipagötu 14 á Akureyri aftur eftir að endurbætur í síðustu viku, en útibúið flutti tímabundið í húsnæði fyrrverandi útibús Byrs við sameiningu bankanna. Útibúið hefur allt verið endurnýjað og skipulagi þess breytt með það fyrir augum að bæta aðgengi viðskiptavina. Á opnunardaginn var mikið um að vera í útibúinu, boðið var uppá kaffi og kökur og leikin var lifandi tónlist fyrir viðskiptavini bankans.
Í tilefni af opnun útibúsins afhenti Íslandsbanki Akureyrarbæ málverk til eignar. Málverkið, sem er eftir listmálarann Eirík Smith, heitir Álfkonan, og var málað árið 1984 að ósk Iðnaðarbankans sem var með útibú á Akureyri. Málverkið er afar glæsilegt, 145 sentímetrar á hæð og er á fimmta metra á breidd og sýnir þá glæsilegu fjallasýn sem við blasir þegar horft er yfir Eyjafjörðinn yfir til Akureyrar frá Vaðlaheiði. Þetta fallega málverk Eiríks hefur síðan 1984 prýtt veggi útibús Íslandsbanka á Akureyri og fyrirrennara hans. Viðskiptavinir og starfsmenn hafa fengið að njóta þess en við endurnýjun útibúsins var ljóst að þetta stóra málverk þyrfti að víkja. Stjórnendum Íslandsbanka þótti því mikilvægt að málverkið færi ekki af Norðurlandinu þegar útibúið var endurnýjað og því var ákveðið að Akureyrarbær fengi það að gjöf.