Ísfisktogarinn Harðabakur EA seldur og fær nýtt hlutverk

Harðbakur, eitt mesta aflaskip Íslendinga fyrr og síðar, fær bráðlega nýtt hlutverk því fyrirtækið Neptune ehf. hefur keypt skipið og mun það í framtíðinni nýtast sem rannsóknaskip. "Neptune ehf. er íslenskt fyrirtæki í eigu Íslendinga með höfuðstöðvar á Akureyri en einnig er fyrirtækið í samstarfi við Rússa," segir Ágúst Guðmundsson, Framkvæmdastjóri.  

Fyrir kaupin á Harðbak hafði Neptune ehf. keypt annað skip sem heitir sama nafni og fyrirækið, þ.e. Neptune og hefur það verið lengi í slipp hjá Slippnum Akureyri. „Verið er að útbúa Neptune sem rannsóknaskip. Mjög færir kafarar og vísindamenn munu nota skipið, en vísindamennirnir eru allir erlendir. Þessir aðilar eru meðal þeirra færustu á sviði botnrannsókna tengdum olíu og gasi og er útbúnaður skipsins eftir því. Í Neptune er afar fullkominn búnaður, til að mynda, kafbátur, róbotar, fullkomnar rannsóknarstofur og fleira," sagði Ágúst.

Harðabakur fær svipað hlutverk og Neptune en verður í fyrstu að minnsta kosti ekki jafn fullkomlega útbúinn. „Harðbakur fer í slipp hér á Akureyri. Ég er að reyna að komu öllu fyrir hér á Akureyri, þetta er íslenskt félag með höfuðstöðvar á Akureyri og ég vil koma öllu sem ég mögulega get fyrir hér í mínum heimabæ."

Stærsta verkefni Slippsins í 20 ár

Ágúst segist ekki geta sagt til um hvenær Harðbakur kemst í slipp. "Umfangið með Neptune er mun meira en lagt var með í upphafi, við höfum alltaf verið að gera þetta flottara og flottara þannig að við höfum tekið mikinn tíma frá Slippnum. Þetta er sennilega stærsta verkefni Slippsins í ein 20 ár eða frá því að nýsmíðunarverkefni voru hérna á Akureyri. Það styttist hins vegar óðum í að Neptune verði klár," sagði Ágúst.

Hann sagði ennfremur að skipin muni mikið starfa við rannsóknir utan íslenskrar lögsögu, en þegar til að mynda Neptune verður ekki við rannsóknir sé hægt að nota hann undir svokallaðar ævintýraferðir sem eru vaxandi þáttur í ferðamennsku.

Nýjast