26. maí, 2011 - 14:23
Fréttir
Fjögur tilboð bárust í endurnýjun aðrennslispípu Laxá II í Þingeyjarsveit en tilboðin voru opnuð hjá Landsvirkjun í
morgun. Ísar ehf. átti lægsta tilboð, rúmar 158,2 milljónir króna. ÞS Verktakar áttu næst lægsta tilboð, tæpar 170
milljónir króna, Trésmiðjan Rein ehf. bauð um 174,3 milljónir en hæsta tilboðið átti fyrirtækið GV Gröfur ehf. á
Akureyri, um 184,7 milljónir króna.
Verkinu er skipt í tvo áfanga: Annars vegar felst verkið í að endurnýja núverandi aðrennslispípu við Laxá II milli
inntaksstíflu og jöfnunargeymis, á um 342 m kafla. Hins vegar felst verk í endurbótum á núverandi jöfnunargeymi stöðvar, sandblæstri
og málun, ásamt einangrun og klæðningu á ytra byrði og smíði og uppsetningu þaks á geyminn. Áætlaður verktími er
júní til og með september 2011.