Ákveðið að því að taka upp nýtt greiðslukerfi á þeim bílastæðum í miðbæ Akureyrar sem eru mest miðsvæðis. Andri Teitsson formaður umhverfis- og skipulagsnefndar Akureyrarbæjar segir að búist sé við að innheimta fyrir bílastæði hefjist á þessum stæðum fljótlega upp úr næstu áramótum.
„Það eru nokkrar ástæður fyrir því að við tökum nú upp gjaldskyldu á bílastæðum í miðbæ Akureyrar,“ segir Andri, en um langt árabil hafa stæðin verið gjaldfrjáls í ákveðin tíma, allt frá 15 mínútum og upp í tvo tíma. Ökumönnum var gert að setja þar til gerða bílastæðaklukku á áberandi stað í bílum sínum og fara eftir tímamörkum.
„Rekstur bílastæða er kostnaðarsamur og við teljum sanngjarnt að þeir sem nota stæðin greiði fyrir þau. Ferðamenn hafa verið í stökustu vandræðum með að skilja klukkufyrirkomulagið og svo eru ákveðnir annmarkar fólgnir í tímamörkunum, eftirsóttustu stæðin eru til að mynda einungis til afnota í 15 mínútur og upp í tvær klukkustundir,“ segir Andri.
Reiknað er með að flestir greiði með appi í símanum en einnig verða settir upp þrír greiðslu-standar þar sem hægt verður að greiða með greiðslukorti.
Andri segir að áfram verði um 200 gjaldfrjáls stæði í næsta nágrenni við miðbæinn, svo sem við Strandgötu, austan Glerárgötu, við Akureyrarvöll og við Austurbrú og Leikhús.
/MÞÞ