Innflutningur á kjöti verði heimilaður
Það er hlálegt að ráðherra beri við fæðuöryggi varðandi ákvarðanir sínar um innflutning og háa tolla á sama tíma og skortur er á kjöti í landinu. Þetta sýnir best þær ógöngur sem núverandi stefna í landbúnaðarmálum, með höftum og ofurtollum á innfluttar landbúnaðarvörur, er komin í. Það er engin nýlunda að stjórnvöld láti hagsmuni neytenda sitja á hakanum þegar teknar eru ákvarðanir er varða landbúnaðarkerfið. Þannig hefur það ætíð verið. Neytendasamtökin undrast þó hversu einráður landbúnaðarráðherra virðist vera í ákvörðunum sínum. Það er engu líkara en stefnan í landbúnaðarmálum sé á forræði eins manns en ekki stjórnvalda, segir í frétt á heimasíðu Neytendasamtakanna.
Álit umboðsmanns á tollalögum
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti hefur borist álit umboðsmanns vegna úthlutunar tollkvóta í landbúnaði. Í áliti sínu staðfestir umboðsmaður að framkvæmd ráðherra er í samræmi við sett lög en tilefni álitsgerðarinnar er einmitt kæra Samtaka verslunar og þjónustu þar sem því er haldið fram að ráðuneytið hefði í reglugerðum farið út fyrir valdheimildir tollalaga nr. 88/2005. Aftur á móti bendir umboðsmaður á að það vald sem Alþingi felur ráðherra til að víkja frá lögbundnum tollum kunni að vera rýmra en heimilt er samkvæmt stjórnarskrá. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið mun taka athugasemdir umboðsmanns til skoðunar í samráði við fjármálaráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis en ráðuneytið getur sem kunnugt er ekki breytt settum lögum, segir í frétt frá ráðuneytinu.