Þóroddur bendir á að erfitt geti reynst að skilgreina nákvæmlega hver sé Akureyringur og hver ekki. Þannig hafi kannanir til dæmis sýnt að einungis um þriðjungur kjósenda á Akureyri séu fæddir þar og hafi hvergi annars staðar búið. Samkvæmt svo þröngri skilgreiningu séu Akureyringar með stórum staf því innan við sex þúsund talsins. Sé hins vegar miðað við alla þá sem fæðst hafi á Akureyri og búi þar nú, séu innfæddir Akureyringar um 61% af bæjarbúum samkvæmt tölum frá Ólöfu Garðarsdóttur hjá Hagstofu Íslands. Innfæddir Akureyringar séu því um tíu þúsund, en aðfluttir Akureyringar um sjö þúsund talsins.Um þriðjungur aðfluttra Akureyringa er fæddur á höfuðborgarsvæðinu og um þriðjungur er fæddur á Norðurlandi. Um sjötti hluti er fæddur annars staðar á landinu og svipaður fjöldi er fæddur erlendis. "Það bjargast ekkert samfélag með því að reyna að halda unga fólkinu í átthagafjötrum" segir Þóroddur. "Það liggur í hlutarins eðli að stór hluti ungu kynslóðarinnar vill hleypa heimdraganum, kynnast nýju fólki og takast á við framandi aðstæður. Eftir því sem samfélögin eru smærri, því mikilvægara er það fyrir unga fólkið að prófa eitthvað nýtt. Það sem skilur milli feigs og ófeigs er ekki hvort tekst að koma í veg fyrir að fólk flytji á brott, heldur hversu auðvelt er að flytja til bæjarins - hvort sem um er að ræða brottflutta íbúa á heimleið eða aðkomufólk sem aldrei hefur búið þar áður."
Þóroddur telur það einmitt helsta styrk Akureyrar hversu vel sé tekið á móti aðkomufólki. Akureyringar séu þeir sem búi á Akureyri en ekki aðeins þeir sem séu svo heppnir að vera þar fæddir. Það sé eitt helsta einkenni deyjandi byggðarlaga víða um heim að litið sé á aðkomufólk sem annars flokks borgara og þeim meinað að taka fullan þátt í daglegu lífi samfélagsins. Ef slíkt væri raunin á Akureyri hefði bæjarbúum eflaust fækkað líkt og víða annars staðar á landsbyggðinni og væru nú rétt um tíu þúsund talsins í stað sautján þúsunda eins og raun ber nú vitni