Slökkviliðsmenn hafa áhyggjur af því hve mörg heimili í landinu eru berskjölduð fyrir eldsvoðum. Allt of mörg heimili hafa engan eða of fáa reykskynjara. Þau fengju því litla eða enga viðvörun ef eldur yrði laus að næturlagi. Innan við helmingur heimila er með eldvarnabúnað sem slökkviliðsmenn telja lágmarksbúnað, það er reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi. Nú fer í hönd sá tími þegar eldhætta eykst á heimilum.
Slökkviliðsmenn hvetja fólk því til að grípa til viðeigandi varúðarráðstafana. Tveir létust í eldsvoðum á síðasta ári og eignatjón nam 1,7 milljarði króna. Slökkviliðsmenn hafa því miður farið í útköll þar sem fólk hefur látist af þeirri einu ástæðu að reykskynjara vantaði. Það vilja þeir alls ekki þurfa að upplifa. Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) efndi til átaks um að fræða fólk um eldvarnir og mikilvægi þeirra í síðustu viku. Þá heimsóttu slökkviliðsmenn um allt land á fimmta þúsund átta ára börn í grunnskólum um allt land í síðustu viku til að fræða þau og fjölskyldur þeirra um eldvarnir.
Varðandi stöðu mála á heimilum landsins þá tek ég undir þær áhyggjur. Í mörg ár höfum við verið með þessa fræðslu og höfðað til barna sem og foreldra þeirra varðandi notkun á eldvarnarbúnaði á heimilum. Einnig höfum við verið með árlega sölu á Glerártorgi fyrir jólin og erum þá með fagráðleggingar. Þessar varnir og sér í lagi líftryggingin, reykskynjarinn, er nauðsynlegur búnaður til að tryggja grunnöryggi heimila okkar, segir Þorbjörn Guðrúnarson slökkviliðsstjóri á Akureyri.
Eldvarnareftirlit slökkviliðs Akureyrar gefur einnig ráðleggingar til einstaklinga varðandi heimili þeirra og er sú þjónusta gjaldfrjáls og fólki frjálst að senda erindi sín í tölvupóstinn eldvarnaeftirlit@akureyri.is, í síma eða komið á slökkvistöðina og fengið ráðleggingar.