Illugi lofar Verkmenntaskólanum rekstrarfé
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sagði á Alþingi í dag að Verkmenntaskólinn á Akureyri og aðrir skólar í svipaðri stöðu fái á næstunni rekstrarfé svo þeir geti greitt reikninga sína. Hann sagði það mistök í kerfinu að Fjársýsla ríkisins hafi neitað að greiða skólunum rekstrarfé.
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar í Norðausturkjördæmi, spurði menntamálaráðherra út í málið. Brynhildur sagði málið hljóma frekar einkennilega. Mörg dæmi væru um að stofnanir væru með uppsafnaðan halla en samt fengið rekstrarfé frá fjármálaráðuneytinu. Brynhildur vildi fá skýringar frá menntamálaráðherra og spurði hvort fleiri stofnanir mættu eiga von á að lenda í samskonar vanda.
Sex framhaldsskólar eru í sambærilegri stöðu samkvæmt Illuga og uppsafnaður halli í framhaldsskólakerfinu var 240 milljónir um áramót. Rekstraráætlanir gefa til kynna að staðið hafi til að greiða niður 60 milljónir af hallanum í ár. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir og hjá Fjársýslunni hafi þessu verið tekið þannig að greiða ætti allar 240 milljónirnar upp í ár. Þess vegna hefðu skólarnir sex ekki fengið fé til að greiða reikninga.
„Niðurstaðan verður sú að skólunum sem hér um ræðir, sem eru í þessari stöðu, verður hleypt í þá stöðu af hálfu Fjársýslunnar sem er í samræmi við þær áætlanir sem skólarnir sjálfir höfðu gert,“ sagði Illugi. Þannig ættu skólarnir að komast í betri stöðu. Hann vildi þó meina að uppsafnaður rekstrarvandi VMA væri stærri og því dygði þessi aðgerð ekki til lausnar hans. „Ég er að vonast til þess að það sé nú komist fyrir vind hvað varðar kerfisþátt málsins, og kominn tími til,“ sagði Illugi en sagði samt ákveðinn vanda enn eiga við um VMA.
Brynhildur Pétursdóttir sagðist þó ekki alveg skilja svar menntamálaráðherra, í því hefði verið viðurkennt að mannleg mistök í kerfi hefðu átt sér stað en að vandi skólanna væri enn til staðar.