Iðnaðarsafninu lokað innan fárra vikna fáist ekki fjármagn

Jakob Tryggvason Hollvinur og Þorsteinn E. Arnórsson sem eitt sinn var launalaus safnstjóri hjá Iðna…
Jakob Tryggvason Hollvinur og Þorsteinn E. Arnórsson sem eitt sinn var launalaus safnstjóri hjá Iðnaðarsafninu - þegar ekki var til fjármagn til að greiða laun. Nú berast þau tíðindi frá Iðnaðarsafninu að því verði lokað í síðasta lagi 1. mars nema Akureyrarbær leggi til fjármuni.

Iðnaðarsafninu á Akureyri verður lokað í síðasta lagi 1. mars næstkomandi nema til þess komi að Akureyrarbær greiði að lágmarki 7, 5 milljóna króna framlag til safnsins, sem menn þar á bæ telja sig hafa lesið út úr nýrri safnastefnu sem bærinn samþykkti síðastliðinn vetur.

Verði safninu lokað á næstu vikum mun starfsemi Hollvinasamtaka þess einnig hætta starfsemi, safngripum sem eru í eigu annarra en Iðnaðarsafnsins verður skilað og lyklavöld færð Minjasafninu á Akureyri sem í framhaldinu færi lyklavöldin, líkt og segir í stofnskrá Iðnaðarsafnsins frá 15. janúar árið 2004.

 

Ömurleg afmælisgjöf

„Verði það niðurstaðan er það einu orði sagt ömurleg afmælisgjöf bæjarstjórnar Akureyrar 2022-2026 til Iðnaðarsögu bæjarins og allra þeirra er unna sögu Iðnaðarbæjarins Akureyri,“ segir í bréf sem stjórn safnsins hefur sent til bæjarfulltrúa á Akureyri. Velunnarar safnsins og iðnaðarsögu bæjarins eru hvattir til að láta í sér heyra. Safnið verður – endist því líf og heilsa – 25 ára gamalt á þjóðhátíðardaginn næsta, 17. júní í sumar. Jón Arnþórsson var frumkvöðull að því stofnun safnsins og í upphafi ver megináhersla lögð á að varðveita muni og minjar frá sambandsverksmiðjunum á Gleráreyrum. Sú söfnun var í fyrstu hryggjarstykkið í starfsemi safnsins, en síðan hefur margt bæst við enda saga iðnaðar á Akureyri fjölbreytt og merkileg.

 

Bæjarfulltrúar fara undan í flæmingi

 

Iðnaðarsafnið á við fjárhagsvanda að etja og er bent á að til að reka fullgilt safn þurfi starfsfólk, allt að eitt og hálft stöðugildi til að vel sé. Telja forsvarsmenn safnsins sig geta lesið út úr nýrri safnastefnu að fyrirhugað væri að greiða safninu þessa upphæð 7,5 milljónir króna að lágmarki en ekki bólar á framlaginu. Eru menn þar á bæ orðnir langeygir eftir peningunum og benda á að margir frambjóðendur hafi heimsótt safnið í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga í fyrra vor. Þar hafi oft komið fram það sjónarmið að tryggja þyrfti rekstrargrundvöll safnsins í eitt skipti fyrir öll og hætt sífelldu slökkvistarfi sem verið hefur ríkjandi undanfarin ár.

Nú telja Iðnaðarsafnsmenn að þeir hafi upplýsingar um að fjármagnið sé alls ekki á leiðinni á Iðnaðarsafnið og bæjarfulltrúar fari undan í flæmingi þegar spurt er.

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast