Iðnaðarsafnið stendur fyrir söfnun vegna smíði líkans af Húna ll

Húni ll á siglingu    Mynd Þorgeir Baldursson
Húni ll á siglingu Mynd Þorgeir Baldursson

Í fréttatilkynningu sem Iðnaðarsafnið á Akureyri sendi frá sér í morgun kemur fram að 22 júni á næsta ári verða liðin 60 ár frá þvi að Húni ll var hleypt af stokkunum.  Í tilefni þessa áfanga áformar safnið að láta smíða líkan af  Húna og hefur Elvar Þór Antsonsson á Dalvík tekið verkið að sér.  Báturinn var smíðaður  í Skipasmíðastöð KEA.

Nánar segir í tilkynningu safnsins:

Fréttatilkynning.
Þann 22 júni á næsta ári þ.e. 2023, verða nákvæmlega 60 ár liðin síðan að mótorbáturinn Húni ll var settur í sjó í fyrsta skipti.
Skipið var smíðað í skipasmíðastöð KEA fyrir Björn Pálsson þingmann og kaupfélagsstjóra á Skagaströnd sem í þá tíð hét Höfðakaupstaður.
Saga skipsins er öllum kunn en frá árinu 2006 hefur Húni ll verið í eigu Iðnaðarsafnsins á Akureyri og gert út af miklu eldmóði og myndarskap af Hollvinafélagi Húna ll.
Nú á næsta ári, nánar tiltekið 22. júní 2023 verða nákvæmlega 60 ár síðan Húna var hleyft í sjó í fyrsta skipti.
Bent er á glæsilegan bækling sem gefin var út fyrir nokkrum árum sem segir sögu skipsins frá upphafi til vorra daga.
Bæklingurinn var gefin út af Hollvinum Húna ll.
Höfundur texta Þórarinn Hjartarson
Saga báts:
Húni ll
Í tímans rás.
Í tilefni þessara tímamóta hefur verið ákveðið að hefja nú söfnun fyrir smíði líkans af skipinu. Leitað hefur verið til Elvars Þórs Antonssonar á Dalvík að smíða líkanið.
Elvar nefndi að það væri honum mikill heiður verði þessi smíði að veruleika enda hefði hann hitt á sinni tíð yfirsmið skipsins, Tryggva Gunnarsson.
Gaman er að geta þess að stefnt er að líkanið verði smíðað úr sömu eik og Húni ll sjálfur var smíðaður úr á sínum tíma. Til eru nokkrar fjalir frá þeim tíma og væri þetta skemmtilegt ef til tekst.
Líkanið/skipið verður afhjúpað 22. júní 2023 og það væri vel við hæfi að það yrði gert um borð í Húna ll sjálfum sem næst á þeim stað er skipið snerti sjó í fyrsta sinn fyrir 60 árum fyrir framan skipasmíðastöð KEA á Oddeyrinni.
Saga Húna ll er ljóslifandi saga skipasmíða á Akureyri á liðinni öld og merkileg svo vægt sé til orða tekið og um leið minnisvarði þeirra manna sem ruddu veginn í skipasmíði hér í bæ. Blessuð sé minning þeirra allra.
Þessa sögu hefur skipið varðveitt og enn og aftur er mér ljúft að nefna Hollvinafélaga Húna ll sem með lífi sínu og sál, ómældu vinnuframlagi og elsku til skipsins, haldið því við svo glæsilegu sem það er nú þegar halla fer í 60 ára afmælið.
Við munum leita til velunnarra Húna ll, einstaklinga og fyrirtækja við fjársöfnunina.
Kostnaður við smíði líkansins er um 1.5 milljónir króna.
Líkanið verður svo varðveitt í Iðnaðarsafninu á Akureyri.
Ábyrgðarmaður þessa verkefnis er Sigfús Ólafur Helgason safnstjóri Iðnaðarsafnsins.
Þess ber að geta að á næsta ári þann 17. júní verður Iðnaðarsafnið á Akureyri 25. ára og einnig er vert að geta þess að á árinu 2023 verða 80 ár síðan happaskipið Snæfell EA var hleypt af stokkunum en það rann fyrst í sjó 21. maí 1943 en það var einnig smíðað í skipasmíðastöð KEA á Oddeyri.
Stofnaður hefur verið banka/söfnunnarreikningur fyrir þessa söfnun og tekið verður við frjálsum framlögum einstaklinga, fyrirtækja og stofnanna í þetta verðuga verkefni.
Reikningurinn er eign Iðnaðarsafnsins á Akureyri og er Þorsteinn Arnórsson fyrrum safnstjóri ábyrgðarmaður hans.
Reikningur.
Banki 0565 - Höfuðbók 26 – reikningsnúmer er 002898.
Kt 430798-2519

Athugasemdir

Nýjast