Icelandair hótel Akureyri hefur tekið ákvörðun um að hætta alfarið að bjóða uppá plaströr frá og með föstudeginum 9. mars. „Eins og flestir vita þá er ofnotkun á plasti í heiminum og hefur það skaðleg áhrif á umhverfi okkar allra, auk þess sem það tekur mörg ár fyrir plast að eyðast,“ segir Sigrún Björk Sigurðardóttir hótelstjóri.
Icelandair hótel hlutu umhverfisverðlaun atvinnulífsins á síðasta ári en hótelin hafa látið til sín taka á sviði umhverfismála og segir Sigrún að þessi ákvörðun sé einn liður í því.
„Við erum stöðugt að leita leiða til þess að minnka rusl og plastnotkun. Nú eru bara papparör í boði hér á veitingastaðnum og barnum hjá okkur. Við höfum velt þessari hugmynd fyrir okkur í svolítinn tíma og ákváðum að taka loksins af skarið. Með þessu viljum við vekja fólk til umhugsunar og um leið hvetja önnur veitingahús og skemmtistaði hér á norðurlandi til þess að gera það sama,“ segir Sigrún Björk.