Icelandair flýgur til Akureyrar næsta sumar um Keflavíkurflugvöll
Næsta sumar mun Icelandair bjóða upp á flug til og frá Akureyri um Keflavíkurflugvöll á ýmsa áfangastaði sína í Evrópu og Bandaríkjunum. Viðskiptavinir bóka flugið og innrita sig alla leið. Flogið verður allt að fjórum sinnum í viku frá 7. júní til 30. september 2012. Á Keflavíkurflugvelli er góð tenging við helstu áfangastaði Icelandair.
Brottför frá Akureyrarflugvelli verður klukkan 14.30 og lending á Keflavíkurflugvelli klukkan 15.20. Tímasetningin gerir það að verkum að fjölmargir áfangastaðir Icelandair liggja vel við þessu tengiflugi, til dæmis New York, Boston, Washington, Orlando, Seattle og Halifax í Norður-Ameríku og London, Kaupmannahöfn, Frankfurt, Amsterdam, Brussel og Osló í Evrópu. Brottför frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar er klukkan 16.20 og lending á Akureyri kl. 17.10. Þannig skapast góð tenging við komutíma frá helstu áfangastöðum Icelandair í Evrópu. Akureyrarflugið er bókanlegt sem hluti af flugi Icelandair til og frá Íslandi og mun félagið leigja Fokker 50 flugvél af systurfyrirtækinu Flugfélagi Íslands til þess.
Styrkir undirstöður ferðaþjónustu á Norðurlandi
„Það er spennandi að bæta Akureyri sem nýjum áfangastað inn í leiðakerfið okkar og tengiflugið sem fer
í gegnum Keflavíkurflugvöll. Með þessum hætti erum við að opna nýja leið fyrir ferðamenn frá fjölmörgum öðrum
borgum í leiðakerfi okkar til Akureyrar. Akureyri opnast í bókunarkerfum um allan heim sem áfangastaður Icelandair og við teljum okkur vera að færa
Akureyri og perlur Norðurlands nær erlendum ferðamönnum og styrkja þannig undirstöður ferðaþjónustunnar á Norðurlandi," segir Birkir
Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. „Við teljum líka að það séu mikil þægindi fólgin í því
fyrir heimamenn og ferðamenn að geta innritað sig alla leið frá flugvellinum á Akureyri. Þannig teljum við að þetta nýja flug geti
bæði nýst íbúum Norðurlands sem og erlendum ferðamönnum."
Fagna allri uppbyggingu í ferðaþjónustu
Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri segir Akureyringa fagna allri uppbyggingu í ferðaþjónustu á Íslandi og sérstaklega á Akureyri og Norðurlandi. "Það felast mikilvægt tækifæri í því að Akureyri og Akureyrarflugvöllur tengist bókunar- og leiðarkerfi Icelandair. Akureyri og Akureyrarflugvöllur verður sýnilegri sem áfangastaður fyrir erlenda ferðamenn og í því eru tækifæri til frekari uppbyggingar og markaðssetningar svæðisins", segir hann. Eiríkur leggur áherslu á að tenging Akureyrar- og Keflavíkurflugvallar dragi síður en svo úr mikilvægi Reykjavíkurflugvallar og staðsetningar hans í Vatnsmýrinni fyrir innanlands- og sjúkraflug. "Akureyrarbær óskar Icelandair velfarnaðar í rekstri þessarar flugleiðar og væntir þess að allir ferðaþjónustuaðilar á Norður- og Austurlandi njóti góðs af", segir Eiríkur Björn Björgvinsson á vef Icelandair.