Iceland Express frá Akureyri til London

 Iceland Express ætlar að hefja beint áætlunarflug frá Akureyri til London/Gatwick næsta sumar.    Fyrst um sinn er gert ráð fyrir vikulegu flugi, á mánudögum. Forstjóri félagsins tilkynnti þetta við opnun nýstækkaðrar flugbrautari á Akureyri nú áðan. “Iceland Express hefur um langt skeið haft hug á því að efla þjónustu við landsbyggðina og er þetta liður í því,” sagði Matthías Imsland forstjóri félagsins, þegar hann tilkynnti um þessa nýjung á vegum félagsins á Akureyrarflugvelli í dag.

 “ Ljóst er, að með þessu flugi styttist til muna ferðatíminn fyrir Akureyringa og nærsveitamenn, því nú þurfa þeir ekki að koma sér fyrst suður á leið sinni til útlanda,” bætti hann við.Gatwick er vel staðsettur flugvöllur rétt sunnan við London og þaðan er flogið til allra átta, enda fljúga flugfélög á borð við easyJet, British Airways og US Airways þaðan.  Möguleikar farþega félagsins aukast því enn á fjölbreyttu og ódýru tengiflugi til allra heimshorna.

Nýjast