Íbúum Hörgársveitar fer ört fjölgandi

Þelamerkurskóli í Hörgársveit.
Þelamerkurskóli í Hörgársveit.

Íbúum í Hörgársveit fer fjölgandi og eru nú orðnir um 653. Við Lónsbakka er verið að byggja íbúðahverfi þar sem ætla má að íbúum fjölgi héðan í frá um 200-250 íbúa á næstu árum. Þá er verið að byggja á öðrum svæðum og hugur stendur því til þess að íbúar geti verið orðnir um 900 innan fárra ára. Þetta kemur fram í pistil Snorra Finnlaugssonar sveitarstjóra Hörgársveitar á vef sveitarfélagsins. Hann segir að þessari fjölgun þurfi að mæta með uppbyggingu innviða og er stækkun leikskólans Álfasteins dæmi þess. 

„Nú eru 45 börn í leikskólanum og strax í vor verða þau komin yfir 50 og mun fjölga jafnt og þétt. Leikskólinn er fullsetinn og verður það þar til byggingu nýrrar deildar verður lokið í mars en með henni getum við mætt fjölguninni sem framundan er. Við fögnum hverjum nýjum íbúa og ánægjulegt að verða vitni að ásókn í nýjar glæsilegar íbúðir þar sem fólk kann að meta umhverfið og orðsporið um gott samfélag, sem hlúir vel að menntun og uppeldismálum,” skrifar Snorri. Nemendur í Þelamerkurskóla eru nú 67 og mun þeim fjölga talsvert frá árinu 2023 og svo jafnt og þétt ef áætlanir ganga eftir.

Snorri Finnlaugsson

5,2% fjölgun í fyrra

Snorri segir í samtali við Vikublaðið að á undanförnum árum hafi íbúum í Hörgársveit fjölgað jafnt og þétt og árinu 2020 var fjölgunin þar hlutfallslega mesta af öllum sveitarfélögum á Norðurlandi öllu eða 5,2%. Íbúar sveitarfélagsins eru nú 653 en voru 557 í upphafi ársins 2016 og hefur því fjölgað um 96 síðustu 5 ár, eða um 17,2%. „Bæði hefur verið um að ræða fjölgun í dreifbýlinu en það sem skýrir þó mest þá fjölgun sem verið hefur er stækkun íbúðahverfisins í þéttbýlinu við Lónsbakka. Við Reynihlíð, sem er nýja gatan í hverfinu sem byggst hefur upp síðustu 2 ár, búa nú 45 íbúar og í Lónsbakkahverfinu öllu eru nú 145 íbúar, þannig að íbúum í Lónsbakkahverfinu hefur því fjölgað síðustu 2 ár um 45%,“ segir Snorri. Gert er ráð fyrir að íbúar í hverfinu verði orðnir um 400 innan fárra ára ef uppbygging þar verður samkvæmt áætlunum.

-þev

 

 


Nýjast