Íbúum fjölgaði í fjórum sveitarfélögum í Eyjafirði en fækkaði í þremur

Íbúafjölgunin í Eyjafirði var hlutfallslega mest í Grýtubakkahreppi.
Íbúafjölgunin í Eyjafirði var hlutfallslega mest í Grýtubakkahreppi.

Íbúum í Eyjafirði fjölgaði um 62 á milli ára, samkvæmt yfirliti Hagstofunnar um mannfjölda þann 1. janúar sl., sem birt var í morgun. Íbúar í sveitarfélögunum sjö í Eyjafirði voru samtals 24.165 um síðustu áramót en þeir voru 24.103 um áramótin í fyrra. Íbúum fjölgaði á Akureyri, í Fjallabyggð, Eyjafjarðarsveit, og Grýtubakkahreppi en fækkaði í Dalvíkurbyggð, Hörgárveit og Svalbarðsstrandarhreppi. Um síðustu áramót voru íbúar Akureyrar 17.875 talsins en þeir 17.754 um áramótin í fyrra. Íbúum fjölgaði um 121 á milli ára. Í Fjallabyggð voru íbúar um síðustu áramót 2.035 talsins og fjölgaði um fimm á milli ára. Í Eyjafjarðarsveit fjölgaði um sex íbúa á milli ára, þeir voru 1.031 um áramótin en voru 1.025 þann 1. janúar 2011. Hlutfallslega var fjölgunin mest í Grýtubakkahreppi en þar fjölgaði um 16 íbúa á milli ára. Um síðustu áramót voru íbúar Grýtubakkahrepps 350 talsins en um áramótin í fyrra voru þeir 334.

Í Dalvíkurbyggð fækkaði um 60 íbúa á milli ára, þeir voru 1.900 um síðustu áramót á móti 1.960 um áramótin í fyrra. Í Hörgársveit voru 584 íbúar um síðustu áramót og fækkaði um 16 á milli ára. Íbúar í Svalbarðsstrandarhreppi voru 390 um áramótin og fækkaði um 10 frá árinu á undan.

Í Þingeyjarsveit austan Vaðlaheiðar, fækkaði íbúum einnig. Þeir voru 915 um síðustu áramót en 944 árið áður og nemur fækkunin 29  manns.

 

Nýjast