Íbúðarhúsnæði í skammtímaleigu mikið rætt

68 gistirými eru auglýst til leigu á Húsavík og nágrenni á vefsíðunni Airbnb.com
68 gistirými eru auglýst til leigu á Húsavík og nágrenni á vefsíðunni Airbnb.com

Talsvert hefur borið á margþættum húsnæðisvanda í hinum dreifðari byggðum landsins. Vandinn er misalvarlegur eftir byggðarlögum. Hann birtist m.a. í háum byggingarkostnaði á sama tíma og víðast hvar á landsbyggðinni er húnsæðisverð lágt. Oft meira en helmingi lægra en kostar að byggja.

Afleiðing þessa er sú að lítið sem ekkert er byggt af íbúðarhúsnæði í smærri sveitarfélögum landsins, sérstaklega virðist vera skortur á litlum og meðalstórum íbúðum. Á sama tíma er víða mikið um að 1-2 einstaklingar 60 ára eða eldri búi í stærri íbúðum eða einbýlishúsum; sem vilja, en geta ekki minnkað við sig vegna bæði skorts á smærra húsnæði og ekki síður vegna kostnaðar við að minnka við sig. Leigumarkaðurinn er sömuleiðis afar erfiður á sumum stöðum.

Sprenging í fjölda erlendra ferðamanna  hefur síður en svo létt undir húsnæðisvandann. Margir velja að leigja út íbúðarhúsnæði til skamms tíma til ferðamanna heldur en að vera með leigjendur í langtímaleigu, þar sem það þykir ábatasamara. Í einhverjum tilfellum er um að ræða atvinnustarfsemi án tilskilinna leyfa.

Fylgst með Airbnb

Nýlega sagði dagskrain.is frá því að Akureyrarbær hafi sent bréf til eigenda íbúðarhúsnæðis ef komið hefur  í ljós að það væri í útleigu til ferðamanna án tilskilinna leyfa. Þar er tilkynnt að húsnæðið verði skilgreint sem atvinnuhúsnæði og að fasteignagjöld komi til með að hækka í samræmi við útleiguna. Akureyrarbær hefur fylgst vel með vefsíðum á borð við Airbnb.com og skoðar þar hvaða hús, íbúðir eða herbergi eru boðin ferðamönnum til skammtímaleigu.

Skammtímaleiga bönnuð

Þá hafa fjölmiðlar fjallað um það að undanförnu að sveitarfélögin Mýrdalshreppur og Djúpivogur gengu það langt að banna skammtímaleigu íbúða í sveitarfélögunum.

Dagskrain.is fór á stúfana og kannaði hvort eitthvað slíkt eftirlit væri til staðar í Norðurþingi og hvort það hafi verið rætt innan stjórnsýslu sveitarfélagsins hvort fara ætti að fordæmi Mýrdalshrepps og Djúpavogs og einfaldlega setja bann við frekari útleigu.

„Við erum í sjálfu sér ekki að velta fyrir okkur rekstrarleyfunum sem slíkum. Við hins vegar höfum vaktað AirBnb og fleiri síður í tengslum við okkar gjaldtöku. Þ.a.s. við sendum mönnum hærri fasteignagjöld ef menn eru að nota húsnæði sem atvinnuhúsnæði án þess að það sé skráð sem slíkt,“ segir Gaukur Hjartarson skipulag- og byggingarfulltrúi Norðurþings í samtali við vefinn.

„Við tókum rispu í tengslum við álagningu fasteignagjalda um áramót, við höfum hins vegar ekki litið svo á að það sé sveitarfélagsins að fylgjast með því að leyfi séu á hreinu, það er sýslumaður sem er með það,“ segir Gaukur.

Hann segir jafnframt að það hafi verið rætt ítrekað í skipulagsnefndinni hvort grípa eigi til einhverra aðgerða eða banna tiltekna starfsemi til að sporna við vandanum.  „Við höfum ekki talið okkur vera í lagalegri stöðu til þess, þess vegna bíðum við svolítið eftir því hvað gerist hjá þeim sem hafa tekið þennann pól í hæðina að banna þessa notkun á íbúðarhúsnæði. Hvort þetta brýtur á einhvern hátt á eignarrétti manna eða slíkt. Við höfum í sjálfu sér ekki tekið neitt frumkvæði að því að setja í einhverjar reglur að banna hlutina, en þetta hefur ítrekað verið rætt engu að síður,“ segir Gaukur.

Reglur vegna ónæðismála

Það hefur ekkert verið rætt segir Gaukur hvort farið verði að fordæmi Mýrdalshrepps og Djúpavogs í þessum málum komi í ljós að þær aðgerðir standist lög.

„Það hefur hins vegar verið rætt að menn eigi að vera svolítið á bremsunni þar sem að aðilar hafa ekki getað sýnt fram á nægileg bílastæði í kringum húsin og annað slíkt. Það eru oft athugasemdir frá nágrönnum með það að gestir séu leggjandi á óheppilegum stöðum,“ segir hann og bætir við:

„Við höfum svo sem ekki tekið alvarlega umræðu um það; að við megum ekki missa íbúðarhúsnæði undir ferðaþjónustu einfaldlega vegna þess að hér skortir íbúðarhúsnæði. Það er fyrst og fremst ónæði í hverfum sem við höfum verið að ræða, hvort það sé tilefni til að setja reglur vegna ónæðismála,“ Segir Gaukur Hjartarson skipulags- og byggingarfulltrúi Norðurþings. /epe.

Nýjast