Íbúar við sjö götur taka þátt í nágrannavörslu
Almennt hefur þetta gefið góða raun, segir Jón Birgir Guðmundsson útibússtjóri hjá Sjóvá á Akureyri um verkefnið Nágrannavarsla, sem félagið vinnur að í samstarfi við Akureyrarbæ. Í verkefninu felst að íbúar við tiltekna götu eða götur taka sig sama um að fylgjast með eigum hvers annars. Sjóvá hefur útbúið þar til gerðan verkfærakassa sem inniheldur leiðbeiningar um hvernig hefja eigi nágrannavörslu.
Í verkfærakassanum er efni þar sem farið er yfir tilganginn með nágrannavörslu, hvernig eigi að undirbúa fund með nágrönnum, tillaga að dreifibréfi til að auglýsa fund, hvaða atriði þarf að fara yfir á fundinum, gátlistar fyrir heimili, bílinn, ferðavagninn og mótorhjólið til þess að fara yfir þjófavarnir heimilisins, ítarefni ef eitthvað er í ólagi og bæklingur um innbrota og þjófavarnir. Farið er yfir það hvernig nágrannavarslan virkar og með hvaða hætti upplýsingagjöf þarf að vera á milli nágranna þegar einhver fer að heiman eða þegar eitthvað óeðlilegt á sér stað.
Jón Birgir segir að komin séu upp sjö skilti við jafnmargar götur bæjarins þar sem fram kemur að þar fari fram nágrannavarsla. Við sjáum þetta gerast í bylgjum, þegar eitthvað gerist eins og innbrotafaraldur kemur upp eða eitthvað slíkt tekur fólk við sér og óskar eftir að kynna sér nágrannavörslu, segir hann. Það er almenn ánægja meðal þeirra sem tekið hafa þátt í þessu verkefni og það hefur ákveðinn fælingarmátt þegar þessi skilti eru sett upp við götur.
Jón Birgir hvetur fólk til að kynna sér gátlista sem fylgir verkefninu en þar er m.a. farið yfir nokkur atriði sem að gagni koma, varðandi öryggisatriði í tengslum við t.d. heimilið, bíla og hjól svo dæmi séu tekin. Ég myndi segja að verkefnið hafi gefið góða raun en vona að þátttakan verði meiri. Nágrannavarsla kemur ekki í staðinn fyrir margvísleg öryggisatriði sem fólk þarf að viðhafa, en er ágætis viðbót.